146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

sálfræðiþjónusta í framhaldsskólum.

3. mál
[17:02]
Horfa

Flm. (Guðjón S. Brjánsson) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir endurflutningi á tillögu til þingsályktunar um sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum. Þetta er brýnt mál sem hefur töluvert verið til umræðu í samfélaginu að undanförnu og skýtur upp kollinum alltaf annað veifið og sýnir okkur að þetta er hugstætt þeim sem málið snertir.

Þingsályktunartillaga þessi var áður lögð fram á 145. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu og er nú endurflutt óbreytt. Fyrsti flutningsmaður þá var Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. Flutningsmenn nú sem fyrr eru þingmenn Samfylkingar, auk mín þau Logi Einarsson og Oddný Guðbjörg Harðardóttir.

Þetta er að mati Samfylkingarinnar mikilvægt mál sem lagt var fram við upphaf þingsins í haust, en tillagan sjálf hljóðar á þessa leið:

„Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að sjá til þess að frá og með skólaárinu 2017–2018 verði öllum nemendum í framhaldsskólum landsins tryggt aðgengi að sálfræðiþjónustu innan veggja skólanna þeim að kostnaðarlausu. Ráðherra hafi samráð við Kennarasamband Íslands og Sálfræðingafélag Íslands um tilhögun þjónustunnar, m.a. um meðferð sem veitt er, fjölda nemenda á hvern sálfræðing o.fl.“

Í greinargerð með tillögunni segir m.a. að í svokallaðri hvítbók mennta- og menningarmálaráðherra um úrbætur í menntun komi fram að aðeins 44% íslenskra framhaldsskólanema ljúki námi á tilsettum tíma. Ungt fólk hverfi frá námi og langtímaáhrifa þess muni gæta víða í samfélaginu og merki um það séu þegar farin að sjást. Þetta megi að hluta rekja til slæmrar geðheilsu ungmenna hér á landi en sjálfsvíg eru til að mynda helsta dánarorsök ungra karlmanna á Íslandi sem er nöturleg og óskapleg staðreynd sem takast verður á við með öllum ráðum. Vanda í þessum efnum þarf og er hægt að mæta, t.d. með auknu aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu.

Skólastarfið og námsárin eru jafnan snar þáttur í lífi ungs fólks. Á vettvangi skólans er starfið og viðfangsefnin ýmisleg og samfélagsþroski og tilfinningaþroski í mótun og ekki víst að allir séu jafn vel til þess búnir að takast á við tilveruna með átakalausum hætti. Ungmennin þurfa leiðbeiningar og svör við áleitnum spurningum á umbrotaskeiði, aðstoð og stuðning. Stundum eru þetta atriði almenns eðlis, en oft þróast með ungu fólki vandi sem þarfnast sérhæfðrar nálgunar. Mikið áreiti á sér stað, bæði ytra og innra.

Virðulegur forseti. Vegna skorts á úrræðum í geðheilbrigðisþjónustu hefur álag aukist mikið á kennara, skólahjúkrunarfræðinga og námsráðgjafa, sem hvorki hafa raunar menntun né forsendur til þess að takast á við vandann. Það er því mikilvægt að bregðast við kallinu og auka aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu innan veggja skólanna.

Ungt fólk kallar eftir aðgerðum frá stjórnvöldum. Netbyltingin „Ég er ekki tabú“, sem hrint var af stað fyrir tæpum tveimur árum, var ákall um breytt viðhorf samfélagsins alls til andlegra veikinda og til að benda á gífurlegan kostnað sem fylgir því að leita sér geðheilbrigðisþjónustu. Þá ályktaði Samband íslenskra framhaldsskólanema um málið á sambandsstjórnarþingi sínu í lok árs 2015, en þar er m.a. kallað eftir auknu aðgengi að sálfræðiþjónustu innan framhaldsskóla landsins.

Við þekkjum árangursrík dæmi úr skólastarfi þar sem þjónusta af þessu tagi hefur verið reynd. Skólaárið 2012–2013 réð Verkmenntaskólinn á Akureyri sem dæmi sálfræðing til starfa í 50% starfshlutfall. Í skýrslu sem skrifuð var meðan á tilraunaverkefninu stóð kemur fram að rúmlega 10% nemenda við VMA nýttu sér þjónustuna. Yfir árið tók sálfræðingurinn að meðaltali 2,5 viðtöl á dag, auk þess sem hann var með hópmeðferðartíma í hugrænni atferlismeðferð á vorönn. Í skýrslunni kemur fram að 137 nemendur nýttu sér sálfræðiþjónustu á skólaárinu 2012–2013 og árið eftir 179 nemendur, en það er fjölgun upp á tæplega 31%. Þjónustan skilaði miklum árangri fyrir þá nemendur sem hana nýttu og eftir skólaárið 2014–2015 má sjá mjög aukna aðsókn í þjónustuna en þá tók skólasálfræðingurinn að meðaltali 4,45 viðtöl á dag. Í skýrslunni kemur fram að mikil ásókn nemenda í sálfræðiþjónustu og sá fjöldi viðtala sem veittur var sýni að þörf fyrir slíkt úrræði er til staðar. Þá séu fordómar og skömm hverfandi með auknum sýnileika sálfræðinga innan veggja skólans. Ásókn í þjónustuna er nú jafnari eftir einstökum námsbrautum en þegar fyrst var boðið upp á hana sem gefur til kynna tengsl milli sýnileika og aðgengis og nýtingar á þjónustunni.

Stjórnvöld hafa margvíslegum skyldum að gegna gagnvart nemum í framhaldsskólum landsins. Samkvæmt 2. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008, er hlutverk framhaldsskóla að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi með því að bjóða hverjum nemanda nám við hæfi. Samkvæmt 33. gr. sömu laga eiga allir framhaldsskólanemendur rétt á kennslu við hæfi í hvetjandi námsumhverfi sem m.a. tekur mið af þörfum þeirra og almennri vellíðan. Þá ber, samkvæmt 1. mgr. 33. gr. b, öllum aðilum í skólasamfélaginu að leggja sitt af mörkum til þess að stuðla að og viðhalda góðum starfsanda og jákvæðum skólabrag. Samkvæmt 4. mgr. 34. gr. sömu laga skulu framhaldsskólar leitast við að veita þeim nemendum sérstakan stuðning sem eiga við sértæka námsörðugleika að stríða eða veikindi. Öll framangreind atriði eru þess eðlis að þau snerta andlega líðan nemenda og er ætlað að stuðla að góðri andlegri líðan þeirra. Þá er góð andleg líðan nemenda mikilvæg fyrir árangur í námi. Í lið B.2 í tillögu heilbrigðisráðherra til þingsályktunar um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára kemur fram það verkefni að ráðherra verði falið að skipa starfshóp sem geri tillögur um innleiðingu geðræktarstarfs í leik-, grunn- og framhaldsskólum og að þær liggi fyrir fyrir árslok 2017. Ekkert er hins vegar í tillögunni vikið að því að nemendum í framhaldsskólum skuli tryggður aðgangur að sálfræðiþjónustu sér að kostnaðarlausu. Taka má þó undir þau ummæli, í greinargerð með fyrrnefndri þingsályktunartillögu, að skólinn sé ákjósanlegasti vettvangurinn til að ná til sem flestra barna með geðrækt og forvarnir. Verður að telja að það eigi einnig við um framhaldsskóla.

Virðulegur forseti. Markmið þessarar tillögu er að í byrjun skólaárs 2017–2018 verði tryggt að í öllum framhaldsskólum landsins hafi nemendur aðgang að sálfræðiþjónustu sér að kostnaðarlausu til þess að bregðast við því ófremdarástandi sem skortur á faglegri geðheilbrigðisþjónustu hefur í för með sér. Ráðherra er í þessari tillögu falið að útfæra það nánar með hvaða hætti þjónustan verði veitt en að miða beri við að einn sálfræðingur í fullu starfi geti sinnt um 700 nemendum. Ber að miða þjónustuþörf fámennari jafnt sem fjölmennari skóla við það hlutfall. Er í því miðað við vegvísi samtaka bandarískra skólasálfræðinga sem gera ráð fyrir að fjöldinn fari aldrei yfir 1.000 nemendur á hvern sálfræðing. Sé hlutverk sálfræðingsins meira en aðeins að sinna greiningu og ráðgjöf, t.d. einnig að veita viðeigandi meðferð í hvert sinn án þess að vísa nemendum til sálfræðinga starfandi utan skólans, ber að miða við 500–700 nemendur á hvern sálfræðing. Er í þessu einnig haft í huga að bið eftir þjónustu af þessu tagi getur verið slæm fyrir nemendur og mikilvægt að nemendur sem þurfa á þjónustunni að halda geti komist sem fyrst að.

Að lokum, virðulegi forseti. Það væri að mati tillöguflytjenda Alþingi til mikils sóma að ljúka þessu máli í góðri sátt þannig að undirbúningur starfs á þessum vettvangi geti hafist sem fyrst.