146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

sálfræðiþjónusta í framhaldsskólum.

3. mál
[17:11]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka frummælanda fyrir ræðuna og málið. Þetta er mál sem ég held að við í Vinstri grænum getum skrifað upp á í einu og öllu og væntanlega í fleiri flokkum. Það duldist engum í kosningabaráttunni nú í haust að geðheilbrigðisþjónusta ungmenna brennur mjög mikið á ungu fólki. Við fundum það öll sem fórum á fundi í framhaldsskólum í tengslum við skuggakosningar að þetta var eitt af heitari málum þar, enda er þetta stórmál. Þetta snýst um það m.a. að koma í veg fyrir brottfall úr framhaldsskóla þar sem sálfélagslegar aðstæður eru einn af helstu þáttunum fyrir því að fólk flosnar upp úr námi. Svo er ekki laust við að maður fyllist dálitlum trega yfir því að þetta mál þurfi að koma fram nú á árinu 2017 þegar vinstri stjórnin var á síðustu misserum sínum í startholunum að efla einmitt þessa nærþjónustu, bæði heilsugæsluna og framhaldsskólana með ýmsu þverfaglegu starfi sem því miður hefur ekki náðst að hrinda nægilega í framkvæmd á þeim árum sem síðan eru liðin.

Jafnframt hafa síðustu ár verið notuð til að þrengja enn að framhaldsskólunum þannig að nú er búið að þröngva þá alla niður í þriggja ára nám sem gerir ekkert annað en að auka álagið á nemendur, sem aftur vindur upp á sig og eykur hættuna á því að sálræn vandamál skjóti rótum. Þó að þetta hefði mátt komast í framkvæmd miklu fyrr þá fögnum við vonandi öll sem eitt því að þetta mál sé komið fram og vonum að það nái fram að ganga.