146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

sálfræðiþjónusta í framhaldsskólum.

3. mál
[17:17]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni fyrir gott svar. Ég tel það svo sem ekkert stórmál þó að greiningin hafi ekki farið fram, þetta voru bara spurningar sem vöknuðu við ræðu hv. þingmanns og við lestur greinargerðarinnar. En þetta er líka eitthvað sem hv. þingmenn í velferðarnefnd, ef málið fer til velferðarnefndar, geta skoðað og kallað eftir í vinnu nefndarinnar.

Það er afar brýnt mál að auka aðgengi að sálfræðingum, sama hvort er í framhalds- eða grunnskólum. Við höfum í flestum skólastofnunum, eða mörgum hverjum, aðgang að hjúkrunarfræðingi sem börn og ungmenni hafa leitað mikið til.

Eins og greinargerðin sýnir fram á hefur verið verulegur stígandi í aðsókn á milli ára þar sem þetta verkefni hefur verið keyrt. Það er mjög mikilvægt, og ábyrgðarhlutverk fyrir okkur sem hér erum, að skoða hvernig við getum hjálpað nemendum í framhaldsskólum til að hlúa að andlegri líðan og koma þannig frekar í veg fyrir það brottfall sem er úr framhaldsskólum. Eins og jafnframt kemur fram í greinargerðinni þá eru sjálfsvíg helsta dánarorsök ungra karlmanna og við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að auka aðgengi að aðilum sem hlúa betur að andlegri líðan þjóðarinnar.

Ég hlakka til að vinna að þessu góða máli og kalla til gesti og víkka út sjónarhorn. Ég vona að þessi góða tillaga hljóti brautargengi hér á Alþingi.