146. löggjafarþing — 29. fundur,  21. feb. 2017.

kynjahalli í dómskerfinu.

[13:52]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég ætla mér ekki að snúa út úr orðum hennar, en það liggur í loftinu, hún hefur þá tækifæri til að leiðrétta það, að hún telji að réttaröryggi sé stefnt í hættu með því að horfa til kynjasjónarmiða. Ég vona auðvitað að það sé ekki afstaða hennar. En ég get ekki betur skilið af hennar orðum að kyn skipti engu máli.

Það hefur til að mynda komið fram í grein eftir Ragnhildi Helgadóttur 2015 sem hún skrifaði í tilefni af 100 ára kosningarréttarafmæli kvenna á Íslandi, að það skipti máli að konur taki ákvarðanir á æðstu stöðum. Það skipti máli að það sé sómasamlegt hlutfall bæði karla og kvenna alls staðar og það án þess að slakað sé nokkurs staðar á hæfnis- eða gæðakröfum.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra og bið hana að svara mér í því: Hvernig ætlar hún að beita sér í þágu þessara markmiða í samstarfsyfirlýsingunni að jafnrétti í víðtækri merkingu sé órjúfanlegur þáttur í réttlátu og sanngjörnu samfélagi? Hvernig ætlar hæstv. dómsmálaráðherra Sigríður Á. Andersen (Forseti hringir.) að vera boðberi þeirra sjónarmiða og standa fyrir kynjajafnrétti í Stjórnarráðinu?