146. löggjafarþing — 29. fundur,  21. feb. 2017.

úrskurður kjararáðs og komandi kjarasamningar.

[13:55]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Eins og fram kom í fréttum í morgun eru kjarasamningar Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands í hættu; það er vika til stefnu sem þeir hafa til að sjá hvort kjarasamningarnir halda. Þetta hefði kannski ekki átt að koma mikið á óvart. Það var alveg ljóst síðasta sumar eða haust, þá sendi ASÍ frá sér yfirlýsingu um að miklar tugprósenta hækkanir þeirra sem heyra undir kjararáð væru ekki til þess fallnar að búa til sátt. Þetta var áður en ákvörðunin var síðan tekin af kjararáði á kjördag, alla vega mánuði áður, um 44% hækkun á launum þingmanna og fyrr á árinu hafði verið 13% hækkun. Þetta hefði ekki átt að koma kjararáði á óvart og það hefði ekki átt að koma þingheimi á óvart að þetta myndi valda óróleika, eins og þingheimur sá svo. Formenn flokkanna kölluðu eftir því að forsætisnefnd reyndi að finna sátt í málinu. Nú hefur forsætisnefnd ekki tekist það. Ég bókaði í forsætisnefnd að það væri ekki líklegt til sátta að forsætisnefnd miðaði við árið 2006 varðandi launaþróun fyrir þingmenn á meðan aðrir launahópar og þessi 70% á vinnumarkaði hverra kjarasamningar gætu nú leysts upp þurfa að miða við árið 2013.

Þingmenn Pírata hafa nú lagt fram frumvarp, sem þeir bjóða öllum þingmönnum að vera á, um að laun þingmanna, ráðherra og annarra sem heyra undir kjararáð skuli lækkuð og leiðrétt þannig að þau endurspegli 2013 viðmiðið eins og aðrir aðilar á launamarkaði þurfa að miða við. Samtök atvinnulífsins, ASÍ og mörg stéttarfélög á Íslandi hafa bent á að Alþingi þarf að grípa inn í og þetta er það sem Alþingi getur gert. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann styðji slíkt. Hann kallaði eftir breytingum með öðrum formönnum flokkanna og ég spyr hvort hann styðji þessar breytingar jafnframt. Í seinni ræðu vil ég spyrja um aðra þætti sem snúa að því að laga deiluna núna á vinnumarkaði.