146. löggjafarþing — 29. fundur,  21. feb. 2017.

úrskurður kjararáðs og komandi kjarasamningar.

[13:57]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er nokkuð vanur að fjalla úr þessum ræðustól um kjaramál, vinnudeilur, jafnvel kjör einstakra hópa. Oft hefur maður setið hér undir ámæli fyrir að hafa ekki gengið frá kjarasamningum um margra tuga prósenta hækkanir inn í framtíðina fyrir einstaka stéttir opinberra starfsmanna. Svo hef ég orðið uppsafnaða ágætisreynslu af því að tala um lækkun launa þeirra sem heyra undir kjararáð. Það er eini hópurinn sem í þessum þingsal er rætt um að þurfi að lækka kjörin við. Við gerðum þetta undir lok árs 2005. Við gerðum þetta aftur á árinu 2008 og 2009 þegar við lækkuðum beinlínis kjör allra þeirra sem heyra undir kjararáð og frystum síðan í nokkuð góðan tíma.

Forsætisnefnd var að ákvarða þingmönnum 150 þús. kr. launalækkun eða sem jafngildir 150 þús. kr. launalækkun. Það var að gerast fyrir nokkrum dögum. Við erum orðin nokkuð æfð í því að tempra og lækka laun þeirra sem heyra undir kjararáð og alveg sérstaklega þeirra sem sitja í þessum þingsal. Ég hef líka tekið þátt í að skerða lífeyrisréttindi þeirra sem sitja í þessum þingsal. En verst af öllu þykir mér að þurfa að takast á við það við aðra þingmenn að ekki sé nægilega mikið að gert til að lækka kjörin því að ég kæri mig í sjálfu sér ekkert um það að hafa neitt með kjör þingmanna að gera. Mér finnst alveg gersamlega óþolandi að þurfa að taka umræðu um það hver kjör þingmanna eigi að vera eða ráðherra ef því er að skipta. Mér finnst rétt að um þau mál eigi að búa með lögum og fela þriðja aðila að leiða það til lykta. Umræðan um það hvort sá þriðji aðili, sem í dag heitir kjararáð og einu sinni hét Kjaradómur, en hann þurfti auðvitað að leggja niður að kröfu vinnumarkaðarins á sínum tíma, hafi staðið sig í stykkinu eða ekki — (Forseti hringir.) það verða eflaust uppi ólík sjónarmið um það endalaust. Og viðmiðunarpunkturinn er valinn eftir því sem hentar hverju sinni. Ég tek eftir því að hv. þingmaður er í 2013-liðinu.