146. löggjafarþing — 29. fundur,  21. feb. 2017.

úrskurður kjararáðs og komandi kjarasamningar.

[14:00]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ef við erum bara sanngjörn þá er það ekki að tilefnislausu að miða við 2013, það er við það sem 70% kjarasamninga, sem núna eru í hættu, þurfa að miða. Hvers vegna skyldu þingmenn þá ekki miða við það sama? Heldur hæstv. ráðherra að auðvelt sé að fara til þessara hópa og segja: Þið verðið að sætta ykkur við þetta, en þingmenn og aðrir ráðamenn, og þeir sem eru með mjög há laun í samfélaginu, þurfa ekki að gera það? Það er bara sanngjarnt, þetta er sanngirnissjónarmið og það er alveg réttmætt.

Hitt er annað mál ef hæstv. ráðherra hefur ekki hug á því að grípa inn í með þessum hætti, ef hann vill ekki grípa inn í laun. Forsætisnefnd grípur nú inn í kjör og hefur sífellt verið að hækka þau og ef við gætum sanngirni þá er það ekki alveg rétt að við skiptum okkur ekki af okkar eigin launum, við gerum það vissulega með því að skipta okkur af kjörunum. En ef hæstv. ráðherra er ekki hlynntur því að við grípum inn í, á algjörlega sanngjörnum forsendum með 2013 sem viðmið og að við séum í samfloti með öðrum í samfélaginu, sér í lagi núna þegar 70% kjarasamninga eru í uppnámi, og göngum fram með góðu fordæmi sem Alþingi — Alþingi getur gert það og við þurfum ekki ráðherra til þess — ef ráðherra vill það ekki hvað ætlar hann á sjálfur að gera? (Forseti hringir.) Hvað er það sem samtök á vinnumarkaði, heildarsamtökin, segja að vanti til að leiðrétta þessa kjarasamninga? (Forseti hringir.) Húsnæðismál eru eitt. Kannski ráðherra viti það og geti sagt okkur það: Hvað ætlar hann að gera?