146. löggjafarþing — 29. fundur,  21. feb. 2017.

úrskurður kjararáðs og komandi kjarasamningar.

[14:01]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það sem ég gerði ásamt með formönnum annarra stjórnmálaflokka var að leggja erindi inn í forsætisnefnd og hvetja til þess að starfstengdar greiðslur yrðu teknar til endurskoðunar. Það var í beinu samhengi við þessa umræðu. Niðurstaðan jafngildir 150 þús. kr. launalækkun kjörinna fulltrúa. Það er skýrt skref, það er óumdeilanlega verið að lækka kjör þeirra sem hér eru vegna deilunnar um niðurstöðu kjararáðs. Þetta er bara svona.

Það sem stendur eiginlega út af í málflutningi hv. þingmanns er hvað eigi að gera við tímabilið frá 2009–2013 þegar allir þeir sem heyrðu undir kjararáð fengu 15% launalækkun og síðan launafrystingu á sama tíma og bæði almenni og opinberi markaðurinn fóru á flug með talsvert miklum hækkunum. Það er eflaust hægt að finna dæmi um einhverja fámenna hópa sem fengu minna en aðrir (Gripið fram í.) en þessir hópar þróuðust svona. Ég vek athygli á því að það þurfti (Forseti hringir.) ekkert kjararáð og úrskurð frá því til þess að læknar tækju hér skurðstofur í gíslingu. Það þurfti heldur ekkert kjararáð (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) eða úrskurði frá því til þess að loka hér skólastofum í marga mánuði. (Gripið fram í.) Ég hef enga trú á því að það fáist einhver sanngirni í þessa (Forseti hringir.) umræðu eins og vinnumarkaðsmódelið er í dag. Það er einfaldlega mölbrotið. (Gripið fram í.)

(Forseti (SJS): Forseti biður um ró í salnum þannig að ráðherrum og öðrum nýtist ræðutími sinn.)