146. löggjafarþing — 29. fundur,  21. feb. 2017.

skýrsla um niðurfærslu verðtryggðra fasteignalána.

[14:19]
Horfa

Viktor Orri Valgarðsson (P):

Virðulegi forseti. Mér þykir forvitnilega að heyra að hæstv. forsætisráðherra virðist eiga mjög erfitt með að tala um eigin aðgerðir án þess að vísa stöðugt í aðgerðir einhverra fyrri ríkisstjórna vegna þess að ég tala alla vega fyrir sjálfan mig, ég var ekki hluti af þeirri ríkisstjórn og þessi umræða snýst ekki um það. Þetta snýst um það að ræða eitt stærsta mál síðustu ríkisstjórnar sem þáverandi fjármálaráðherra, núverandi hæstv. forsætisráðherra, ber pólitíska ábyrgð á. Það var ein stærsta pólitíska aðgerð síðari ára á Íslandi og ein stærsta popúlíska aðgerð Íslandssögunnar, að mínu mati.

Vegna þess er mjög mikilvægt að nýtt Alþingi fái í dag að taka afstöðu til þeirra vinnubragða sem voru ástunduð á þeim tíma og þess fordæmis sem þá var mögulega sett. Fyrir mér voru alþingiskosningarnar 2013 nefnilega keyptar kosningar. Framsóknarflokkurinn lofaði um fjórðungi kjósenda fullt af peningnum okkar allra gegn því að hann næði völdum. Fyrir vikið fékk hann atkvæði um fjórðungs kjósenda og gaf þeim í kjölfarið 80 milljarða af fé skattborgara.

Þetta var vissulega efnahagsleg aðgerð og ekki hugsuð til jöfnuðar eins og forsætisráðherra bendir á en hún var engu að síður þess eðlis að 80 milljarðar, sem hefðu getað farið í að greiða niður skuldir ríkisins og lækka vaxtakostnað, styrkja innviðina og bjarga Landspítalanum, fóru í staðinn til minni hluta kjósenda þar sem tekjulægri helmingur þjóðarinnar fékk tæp 14% heildarupphæðarinnar á meðan tekjuhæsta tíundin fékk tæplega 30%, eins og kemur fram í skýrslunni.

Það er reyndar mikið gert úr því þar að þessar upplýsingar séu algjörlega tilgangslausar vegna þess að það var alltaf vitað að þeir sem ættu rétt á millifærslunni væru tekjuhærri en aðrir. Mér finnst það mjög skemmtilegt, þetta er svona eins og að segja að það skipti engu máli hvaða áhrif hátekjuskattur hefur á kjör almennings vegna þess að hann er hvort eð er bara ætlaður hátekjufólki.

Ég sé að tími minn er að verða búinn en mig langar að spyrja um það vegna þess að hæstv. forsætisráðherra má njóta sannmælis með það að hann talaði gegn þessari aðgerð í aðdraganda síðustu kosninga en samþykkti hana væntanlega á þeim forsendum að fá í gegn sitt stærsta stefnumál sem er það að halda völdum. (Forseti hringir.) Mig langar því að spyrja hvort þetta sé ekki fordæmi um það að 17% hækkun húsnæðisverðs síðasta árs verði leiðrétt, þ.e. að við hin sem ekki eigum húsnæði fáum þá peninga til baka frá ríkisstjórninni, fáum leiðréttingu. [Hlátur í þingsal.]