146. löggjafarþing — 29. fundur,  21. feb. 2017.

skýrsla um niðurfærslu verðtryggðra fasteignalána.

[14:24]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Virðulegur forseti. Skýrslu um þessa niðurfellingu var haldið frá almenningi. Það er alvarlegt. Þessi sorgarsaga hófst nú reyndar ekki fyrir síðustu kosningar. Þessi feluleikur byrjaði strax þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tók við. Sú stjórn vildi ekki gera neinar greiningar á því hvernig þessi stóra millifærsla myndi skiptast milli landsmanna. Væntanlega vegna þess, eins og kom fram hjá hæstv. forsætisráðherra, að þetta var ekki tekjujöfnunaraðgerð. En hún var býsna dýru verði keypt þessi 80 milljarða kr. framkvæmd.

Leiðréttingin færði nefnilega fjármuni til þeirra sem best stóðu. Yngra fólk, leigjendur og íbúar landsbyggðarinnar voru skildir eftir. Þetta fólk hafði nefnilega ekki notið þeirrar miklu hækkunar á húsnæðis- og fasteignaverði sem margt fólk á höfuðborgarsvæðinu hafði fengið og fékk líka mest út úr leiðréttingunni. Og ekki nóg með það: Biðin eftir skuldaniðurfellingunni virkaði sem tappi í húsnæðismarkaði. Loksins þegar hún kom olli hún þenslu sem við sjáum ekki enn fyrir endann á. Við þessum vanda þarf ný ríkisstjórn að bregðast. En því miður hefur hún engin áform uppi um slíkt. Menn boða gagnsæi þegar það hentar stjórnvöldum. Nú er að koma í ljós í skoðanakönnunum að fólk er óánægt með hvernig gæðunum er skipt. Skýrslurnar fjölluðu um það. Þess vegna átti að birta þær.

En enginn lærdómur er dreginn af því í nýjum stjórnarsáttmála. Miðað við svör forsætisráðherra hér fyrr í dag og núna um skýrslurnar er ekkert sem bendir til þess að hann muni birta næstu óþægilegu skýrslu. Það þurfti nýjan fjármálaráðherra til að birta þessa skýrslu.