146. löggjafarþing — 29. fundur,  21. feb. 2017.

skýrsla um niðurfærslu verðtryggðra fasteignalána.

[14:31]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Þessari kostnaðarsömu aðgerð síðustu ríkisstjórnar er varla hægt að lýsa sem misheppnaðri, enda myndi slíkt gefa til kynna að það hafi á einhvern hátt ekki verið markmið síðustu ríkisstjórnar að fóðra vasa efri stéttarinnar fyrst og fremst. Rúmlega 21 milljarður kr. endaði í vösum 30% ríkustu Íslendinganna.

Við þessu var varað á sínum tíma en ríkisstjórninni var eiginlega alveg sama. Það var ekkert ófyrirsjáanlegt við þessa niðurstöðu. Þeir peningar sem voru færðir úr ríkissjóði í vasa mestmegnis ríks fólks eru skínandi dæmi um þá samfélagsfjandsamlegu stefnu sem rekin hefur verið á Íslandi í marga áratugi. Þessir peningar skiluðu sér að langstærstum hluta til þess helmings þjóðarinnar sem hafði mestar tekjur meðan fátækt fólk og skrimtandi sat eftir. Þessi stefna er beinlínis kommúnismi fyrir hina ríku en kapítalismi fyrir hina fátæku.

Ef þessum rúmlega 72 milljörðum kr. hefði verið frekar varið í eitt helsta hugðarefni hæstv. forsætisráðherra, þ.e. að lækka ríkisskuldir, hefði vaxtasparnaðurinn í dag verið kominn hátt í 16 milljarða kr., samanlagt. Þetta eru rúmlega 4 milljarðar kr. á ári sem hefðu t.d. getað nýst í að byggja fleiri hjúkrunarrými, byggja upp heilbrigðiskerfið eða laga ýmislegt sem er að í samgöngum eða eitthvað þannig, eitthvað gáfulegra. Og þarna geng ég út frá að þetta yrði notað í vaxtakostnaðarlækkun frekar en eitthvert rugl beinlínis.

En, nei, í staðinn var þessi gríðarlega tilfærsla fjármagns til hinna efnameiri. Þetta var gert í staðinn fyrir lagfæringu á gjaldmiðlinum, í staðinn fyrir að lækka vexti að einhverju marki og í staðinn fyrir að leiðrétta það böl sem verðtryggingin er. Og þetta var allt gert án þess að laga í raun stöðu þeirra lægst launuðu í landinu.

Við verðum að halda því til haga að þetta er ekki leiðrétting, við verðum að kalla þetta þá einkavæðingu á sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar sem er það sem þetta var.