146. löggjafarþing — 29. fundur,  21. feb. 2017.

skýrsla um niðurfærslu verðtryggðra fasteignalána.

[14:39]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Við erum kannski ekki miklu nær varðandi stöðuna í dag. Það vekur athygli mína að hér hafa fulltrúar fimm flokka af sjö talað á Alþingi. Tveir flokkar sjá ekki ástæðu til að taka þátt í umræðum, það eru Björt framtíð og Viðreisn, þrátt fyrir að þessir flokkar hljóti að hafa skoðun á þessari gríðarlega umfangsmiklu aðgerð, sem væntanlega hefur haft þau áhrif að ekki er minnst á húsnæðismál í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Auðvitað vekur það athygli að þessir flokkar sjái ekki ástæðu til þess að tjá sig um þessa gríðarlega miklu aðgerð.

Hér er kvartað undan spurningum níu hv. þingmanna til fjármálaráðuneytis. Kvartað er undan því að spurningarnar hafi ekki verið réttar. Bíddu, ef leiðréttingin var almenn aðgerð, eins og hér er haldið fram, er þá ekki rétt að skoða heildarmengið? Auðvitað eru það hinir tekjulægri sem ekki eiga íbúð. Þetta var ekki aðgerð fyrir hina tekjulægri. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að vera bara heiðarlegur. Þetta var ekki tekjujöfnunaraðgerð, það er algerlega rétt. Þetta var ójafnaðaraðgerð. Það liggur þá fyrir.

Við heyrðum hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson segja: Það er verið að afvegaleiða umræðuna. Auðvitað fengu hjón með börn meira en unglingurinn. Já, þau fengu meira, en þeir sem fengu mest voru þeir sem voru með hæstu tekjurnar og áttu mestar eignirnar. Það snýst ekki um að afvegaleiða umræðuna heldur að horfa á staðreyndirnar eins og þær blasa við. Undir þær hefur verið kvittað hér. Leiðréttingin var ekki aðgerð til að jafna kjör. Við sáum aðrar aðgerðir, sem ég nefndi í fyrri ræðu minni, sem náðist mun betri sátt um og ég vitnaði þá til húsnæðisfrumvarpanna og uppbyggingar á leigumarkaði.

En ég ítreka það sem ég sagði áðan: Það er ekki minnst á húsnæðismál í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar.

Var leiðréttingin, sem var hér kölluð móðir allra kosningaloforða, endanlega svarið við húsnæðisvanda landsmanna? Er ekki ætlunin að koma til móts við þá stöðu sem er uppi á húsnæðismarkaði í dag? (Forseti hringir.) Hér hefur verið bent á hækkun fasteignaverðs. Hér hefur verið bent á hugsanlegt fordæmisgildi af þessari aðgerð. Hvað er fram undan, herra forseti?