146. löggjafarþing — 29. fundur,  21. feb. 2017.

skil á skýrslu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum.

[14:49]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér er beint til mín nokkrum afmörkuðum spurningum, m.a. hvaða lög, reglur og réttarákvæði eða siðareglur ákvarði hæfi ráðherra. Í 3. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um það hvenær ráðherra og aðrir opinberir starfsmenn séu vanhæfir til að fara með mál og hvenær þeim beri að víkja sæti. Þess ber að geta að stjórnsýslulögin eiga við þegar teknar eru stjórnvaldsákvarðanir. Það er alveg skýrt að ákvörðun um gerð skýrslunnar, sem var tekin af mér, og birtingu, er engin stjórnvaldsákvörðun og því eiga lögin ekki við. Siðareglur ráðherra bæta í sjálfu sér ekki miklu við stjórnsýslulögin í þessu efni, þar mætti helst líta til 2. gr. a. En ég sé ekki að neinn árekstur hafi orðið milli fjárhagslegra eða persónulegra hagsmuna minna annars vegar og almannahagsmuna sem tengjast gerð skýrslunnar.

Það er algert grundvallaratriði sem hv. þingmaður mætti athuga hér. Það hafa engin lög eða reglur verið brotnar hér. Ekkert mál sem varðaði ráðherrann var til skoðunar. (Gripið fram í.) Ráðherrann hafði talið rétt fram, staðið skil á sínu. Vangaveltur um það hvort ráðherra sé mögulega vanhæfur í þessu efni þegar þannig háttar til — auðvitað á allt annað við þegar menn hafa brotið af sér. En þegar þannig háttar til, þegar menn hafa ekkert að fela, er þessi spurning jafngild þeirri hvort fjármálaráðherra, sem telur fram til skatts á Íslandi, geti látið taka saman skýrslur úr tekjuskattskerfinu. Þetta jafngildir þeirri spurningu. En hv. þingmaður býr náttúrlega bara í þeim hugarheimi að hér hafi lög verið brotin og þar af leiðandi hljóti ráðherrann að hafa verið vanhæfur. Þar er akkúrat rót vanda hv. þingmanns.

Síðan er hér haldið áfram með hæfisspurningarnar. Það er alveg skýrt að þetta mál snýst ekki um hæfi, a.m.k. ekki í lagalegum skilningi. Ég vil láta það koma fram að þessi skýrsla var tekin saman að mínu frumkvæði. Ég hafði engin afskipti af gerð hennar. Ég tel að sjálfsögðu augljóst að skýrsla sem ég hafði látið taka saman og lagði á endanum fyrir þingið ætti erindi við almenning enda var henni ætlað að bregða ljósi á mikilvægt málefni. Ég verð að láta það fylgja hér að ég tel að skýrslan kalli á miklu fleiri athuganir. Hún skilur eftir margar spurningar sem er ósvarað. Ég hef aldrei í tengslum við þessa skýrslu lagt mat á hvort einhver efnisatriði umfram önnur vörðuðu almannahag. Það stóð aldrei neitt annað til en að hún kæmi fyrir almenningssjónir.

Hér hefur verið spurt hvenær skýrslan hafi verið tilbúin. Hún var kynnt í ríkisstjórn 7. október, þ.e. með minnisblaði um meginatriðin. Það má segja að hún hafi verið tilbúin til birtingar í framhaldi af því, a.m.k. þegar sá sem hér stendur hafði haft svigrúm til að kynna sér efnið rækilega og í framhaldinu að taka þátt í umræðu um hana. En eins og áður hefur komið fram hafði ég ákveðið að skýrslan yrði afhent efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis áður en hún yrði birt opinberlega. Ástæðan var sú að nefndin tók visst frumkvæði í þessum málum þegar kemur að stefnumótun og lagabreytingum sem tengjast þessari umræðu. Ég hef átt og átti á síðasta ári gott samstarf við nefndina og við gerðum fjölmargar breytingar á lögum sl. sumar. Ég mat það svo að það væri varla ráðrúm til að kynna Alþingi skýrsluna í ljósi þess að kosningar voru fram undan. Þetta hefur allt saman áður komið fram.

Ég tek sömuleiðis fram, því að hér er látið að því liggja að einhverju hafi verið stungið undir stól eða því stungið ofan í skúffu, að nefndinni var svarað. Fjölmiðlum var svarað að skýrslan væri að verða tilbúin. Þetta var opinber vitneskja, ekki bara að ég hefði ákveðið að láta taka skýrsluna saman heldur að hún væri væntanleg. Samt tala menn hér og líkja þessu saman við mál þar sem menn halda upplýsingum leyndum fyrir almenningi. Við skulum gera greinarmun á þeim málum þar sem upplýsingar berast í ráðuneytið sem enginn veit að kunna að vera þar og slíkum upplýsingum er haldið frá þinginu eða fólkinu í landinu annars vegar, og hins vegar hinu sem snýst bara um það hvenær upplýsingum er skilað til þingsins. Þessi tiltekna skýrsla kom til þingsins og hefur því miður fengið allt of litla efnislega umræðu, sem hlýtur að vera aðalatriðið hér.

Spurningar eins og t.d. þessi hér: Er eitthvað í skýrslunni sem segir okkur að við eigum enn eftir að gera margt til þess að breyta lagalega umhverfinu í tengslum við skattaskjól þannig að við þrengjum enn frekar að notkun þeirra? (Gripið fram í: Já.) Er eitthvað í skýrslunni sem segir það? Það sem skýrslan segir er: Við höfum verið í fararbroddi. Við höfum gert margt. Það er hægt að velja aðrar leiðir en þá erum við farin að nálgast það að leggja blátt bann við (Forseti hringir.) félögum af þessum toga.

Ég læt þetta duga að sinni. Ég kem fleiri athugasemdum að síðar í umræðunni.