146. löggjafarþing — 29. fundur,  21. feb. 2017.

skil á skýrslu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum.

[14:56]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir að hefja þessa umræðu sem er afskaplega mikilvæg. Það er ekki langt síðan við hv. þingmenn ræddum umrædda skýrslu en þá meira efnisinnihald hennar við hæstv. fjármálaráðherra, en við ræðum þetta með örlítið breyttu sniði við hæstv. forsætisráðherra.

Ég ætla þó í þessari stuttu ræðu minni að leggja áherslu á sömu atriði og ég gerði í þeirri umræðu sem ég átti við hæstv. fjármálaráðherra því að mér finnst eins og hæstv. forsætisráðherra mjög mikilvægt að við nýtum tækifærið jafnframt til að ræða efnislegt innihald. Þar spurði ég hæstv. fjármálaráðherra, og ég spyr einnig hæstv. forsætisráðherra nú, hvort upplýsingar séu til um hvaða aðilar það voru sem fluttu út fjármagn í aðdraganda hrunsins annaðhvort í skattaskjól eða til að takmarka áhættu sína að einhverju leyti og nýttu sér jafnframt fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands, svokallaða afsláttarleið, og hvort eitthvert samhengi sé á milli þessara hópa eða hvort um sömu aðila hafi verið að ræða.

Það kemur auk þess fram í umræddri skýrslu að skattyfirvöldum hafi ekki verið gert viðvart af hálfu Seðlabankans þegar um er að ræða grunsamlegar fjármagnstilfærslur og einnig kom það fram á opnum fundi hv. efnahags- og viðskiptanefndar að skiptar skoðanir væru milli þessara stofnana, Seðlabanka Íslands og skattyfirvalda, um þetta eftirlit. Það kom einnig fram á þessum opna fundi að viðskiptabankarnir eigi að hafa eftirlit með þessum fjármagnsflutningum. Því langar mig að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort honum finnist mikilvægt að efla eftirlit með slíkum fjármagnsflutningum og gefa skattyfirvöldum meira vægi í eftirliti með þeim. Ég ætla að enda ræðu mína á þessum orðum.