146. löggjafarþing — 29. fundur,  21. feb. 2017.

skil á skýrslu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum.

[15:01]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Síðast þegar ég ræddi þessa skýrslu hér og benti á mögulega refsiábyrgð hæstv. forsætisráðherra uppskar ég sterk viðbrögð stjórnarliða. Ráðherrann þykist ekki skilja hvers vegna almenningur og þingheimur er ekki bara þakklátur þegar hann átti jú frumkvæðið að gerð skýrslunnar. En hæstv. ráðherra kýs með þessum rökum að líta fram hjá lagalegri skyldu sinni til að skila skýrslunni tímanlega. Skýrslu sem er stútfull af upplýsingum um mikilvæg kosningamál. Enda sá hæstv. ráðherra ekki ástæðu til að setja umrædda skýrslu í kosningasamhengi.

Viðbrögð hæstv. ráðherra koma svo sem ekkert á óvart. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem ráðherrann leynir upplýsingum um skattaskjól, segir þingi og þjóð ósatt um tengsl sín við þessi þjófabæli og ræðst svo reiður á þá sem benda á æpandi vanhæfi ráðherrans. Enda hæstv. ráðherrann sjálfur í Panama-skjölunum, sællar minningar.

Þetta er heldur ekki í fyrsta skiptið sem hæstv. ráðherra misbeitir valdi sínu til þess að blekkja kjósendur. Það er ekki gleymt hvernig hann beitti sér gegn kaupum á gögnum sem innihéldu hugsanlega upplýsingar um þjónustu glæpasamtakanna Mossack Fonseca — já, glæpasamtök, stofnendurnir hafa báðir verið handteknir fyrir skipulagða glæpastarfsemi, við hæstv. ráðherra og fjölskyldu hans. Nei, virðulegi forseti. Það kemur mér ekki á óvart að hæstv. ráðherra Bjarni Benediktsson noti hér enn og aftur sömu brögð og hann gerir í hvert skipti sem upp kemst um skýrsluundanskot eða misnotkun valdheimilda hæstv. ráðherra enda gamalreynd taktík Sjálfstæðisflokksins.

Það sem kemur á óvart er að hv. þm. Pawel Bartoszek og hæstv. ráðherra Óttarr Proppé, fulltrúar flokka sem fyrir kosningar boðuðu minna fúsk, almannahagsmuni umfram sérhagsmuni og bætt vinnubrögð á þingi, taki nú undir með hæstv. forsætisráðherra með aumum eftiráskýringum og þyki ekkert sjálfsagðara en að sitja í ríkisstjórn með hann í forsvari.