146. löggjafarþing — 29. fundur,  21. feb. 2017.

skil á skýrslu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum.

[15:03]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Þessi umræða, ég tala nú ekki um hjá síðasta ræðumanni, kemur mér ekki á óvart þegar þetta málefni er til umræðu. Þetta er ömurleg umræða og ömurlegur málflutningur. Algerlega ömurlegur. Og ekki nokkrum manni sæmandi. (Gripið fram í: Af hverju?) Af því. Það er alveg augljóst og ég ætla ekki að eyða öllum tímanum í að reyna að útskýra það fyrir mönnum.

Það er eðlileg skýring á því af hverju skýrslan var ekki birt. Þetta mál var til umræðu í efnahags- og viðskiptanefnd á síðasta kjörtímabili. Það stóð alltaf til að hún færi til nefndarinnar. Það er ekkert óeðlilegt við það að skýrsla af þessu tagi sæti skoðun í ráðuneyti eftir að hún kemur. Svo er það bara alrangt að hún sé uppfull eða stútfull af upplýsingum sem hefðu skipt máli fyrir kosningar.

Það eina sem er merkilegt sem ekki var vitað fyrir er sennilega að skattsvikin, sem eru auðvitað metin þarna með ónákvæmum hætti, voru miklu minni en umræða var um og haldið var fram. Fram kom hjá formanni nefndarinnar fyrir efnahags- og viðskiptanefnd þegar skýrslan var til umræðu þar að það vantar upplýsingar og gögn.

Ef ég setti mig í spor ráðherra sem fengi svona skýrslu myndi ég auðvitað hugsa: Heyrðu, eigum við að skoða þetta betur? Við þurfum að fá frekari upplýsingar, það vantar frekari gögn. Mjög eðlilegt að skoða það betur og eðlilegt að málið færi fyrst inn í þingið. Enda skipti þetta engu máli fyrir kosningar því að ekkert nýtt var í þessu sem hefði haft áhrif á kosningarnar. Það eina sem hefði kannski skipt máli er að ráðherra hefði getað reynt að skjóta sér upp á þessu: Þetta gerði ég sem enginn annar gerði.

Nei, þessi umræða er ömurleg og ekki nokkrum manni til sóma sem hér hefur sagt á undan, allra síst þeim sem eru í flokki Pírata.