146. löggjafarþing — 29. fundur,  21. feb. 2017.

skil á skýrslu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum.

[15:10]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Í siðareglum ríkisstjórnarinnar segir, með leyfi forseta:

„Ráðherra leynir ekki upplýsingum sem varða almannahag nema lög bjóði eða almannahagsmunir krefjast þess að öðru leyti. Ráðherra ber að hafa frumkvæði að birtingu slíkra upplýsinga sé hún í almannaþágu.“

Þeir sem lesa skýrsluna um eignir Íslendinga á aflandssvæðum sjá það augljósa, sem er að í skýrslunni er að finna upplýsingar sem varða almenning í landinu. Dráttur á framlagningunni braut í bága við siðareglur ríkisstjórnarinnar. Það er mjög miður að hæstv. forsætisráðherra finnist ekkert að því að hafa setið á skýrslunni fram yfir kosningar, gegnum stjórnarmyndunarviðræður og alveg fram í janúar. Hæstv. ráðherra heldur því fram að ekkert nýtt hafi komið fram í skýrslunni sem skiptir máli. Það er rangt. Jafnvel þó það væri rétt er það ekki hæstv. ráðherra að dæma um það. Hann hefur skyldum að gegna gagnvart þjóðinni og þinginu. Hann brást þeim skyldum.

Auðvitað hefðu fjölmiðlamenn í umræðuþáttum fyrir kosningar fjallað um það sem kemur fram í skýrslunni, um Panamaskjölin og skattsvik. Auðvitað hefðum við, frambjóðendur, rætt skattsvikin á grundvelli þess sem fram kemur í skýrslunni. Það sér hver maður. Auðvitað hefði hæstv. forsætisráðherra fundist það óþægilegt fyrir sig og fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Þess vegna er eðlilegt að fólk velti því fyrir sér hvort það hafi einmitt verið ástæðan fyrir því að skýrslan var ekki birt fyrr en eftir kosningar.