146. löggjafarþing — 29. fundur,  21. feb. 2017.

skil á skýrslu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum.

[15:15]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu; menn hafa farið inn í hana hver með sínum hætti. Spurt er um ýmis atriði sem snúa að Seðlabankanum og hvað við getum gert betur í framtíðinni til að fylgjast með fjármagnstilfærslum. Það er ein meginniðurstaðan í skýrslunni að við þurfum að gera miklu betur; okkur skortir gögn og okkur skortir upplýsingar til að draga réttar ályktanir. Í skýrslunni er verið að reyna að slá á umfang ýmissa mála þar sem hin undirliggjandi fjárhæð hleypur á mörg hundruð milljörðum. Það er ein af augljósum niðurstöðum þessarar skýrslu að við þurfum miklu meiri upplýsingar til að geta tekið afstöðu til þessara mála.

Hér hafa menn komið upp og sagt, eins og hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, að þeir telji að hér hafi eitthvað refsivert gerst. Og fleiri en einn þingmaður hafa komið hér upp og sagt að ráðherrann hafi misbeitt valdi sínu, hann sé búinn að brjóta lög. Þessir hv. þingmenn þurfa, held ég, aðeins að kafa dýpra og kynna sér þau úrræði sem eru til staðar. Menn hrópa hér: Vantraust, vantraust. Menn verða að fylgja þeim orðum eftir með athöfnum og koma með vantraustsyfirlýsingu. Það er líka það sem menn hafa áður [Kliður í þingsal.] gert og verið mjög hikandi. Það eru alveg skýrir farvegir fyrir þessi mál. Menn geta verið alveg rólegir með það að þeir eru til staðar hér í þinginu.

Hér hafa menn slegið úr og í. Ég virði það mjög við hv. þm. Ara Trausta Guðmundsson að hann segir að þetta mál verði að ræðast út frá efnisatriðunum sem slíkum. Þá kalla ég (Forseti hringir.) — mætti ég biðja hv. málshefjanda að … hætta að gjamma svona fram í alltaf …

(Forseti (SJS): Forseti biður menn um að gefa ræðumanni hljóð. Það er sérstaklega viðeigandi að málshefjandi gefi ræðumanni hljóð til að svara.)

— já, mér þætti það nú. (Gripið fram í.) Hann hefur gert þetta þannig að taka efnisatriði málsins sérstaklega til umræðu á meðan aðrir vilja alltaf tengja þetta kosningunum en lenda síðan sjálfir í sjálfheldu með rökstuðninginn þegar þeir eru komnir á þær slóðir. Ég tel nefnilega að það hefði verið mikið gagn af því að fá þetta skjal fram fyrir kosningar þó ekki væri nema til að (Forseti hringir.) koma meiri hófsemd í umræðuna um þessi mál heilt yfir. En það er hálfhlægilegt að hlusta á suma þingmenn (Forseti hringir.) hér láta í það skína að það hafi bara ekki verið neinar forsendur til að ræða þessi mál fyrir kosningar (Forseti hringir.) vegna þess (Forseti hringir.) að þeir gerðu nánast ekkert annað. (BLG: Þú svaraðir ekki spurningunni.)