146. löggjafarþing — 29. fundur,  21. feb. 2017.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 39/2016 um breytingu á XXII. viðauka við EES-samninginn.

130. mál
[15:38]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 39/2016, um breytingu á XXII. viðauka við EES-samninginn um félagarétt, og fella inn í samninginn tilskipun um birtingu tiltekinna stórra fyrirtækja og samstæðna á ófjárhagslegum upplýsingum og upplýsingum um fjölbreytileika.

Tilskipunin kveður á um tvær leiðir til að auka gagnsæi og greiða aðgang að upplýsingum um áhrif tiltekinna stórra fyrirtækja á samfélagið. Í fyrsta lagi leggur tilskipunin skyldu á stór félög sem tengd eru almannahagsmunum að birta yfirlit yfir ófjárhagslegar upplýsingar í skýrslu stjórnar félagsins. Slíkt yfirlit skal innihalda upplýsingar um þróun, árangur og stöðu félagsins í umhverfis-, félags- og starfsmannamálum, stefnu félagsins í mannréttindamálum og hvernig það spornar við spillingu og mútum.

Ef félag fylgir ekki ákveðinni stefnu á þessum málefnasviðum skal skýr og rökstudd skýring á því hvers vegna það er ekki gert koma fram í yfirlitinu.

Í öðru lagi leggur tilskipunin þá skyldu á félög sem hafa verðbréf sín skráð á skipulegum verðbréfamarkaði að birta í skýrslu stjórnar lýsingu á stefnu félagsins um fjölbreytileika í tengslum við stjórn, framkvæmdastjórn og eftirlitsstjórn félagsins. Með fjölbreytileika er átt við þætti á borð við aldur, kyn eða menntunarlegan og faglegan bakgrunn. Ef engri slíkri stefnu er fylgt innan félagsins skal koma fram í skýrslunni skýring á því hvers vegna svo sé.

Tilskipunin tekur til tiltekinna stórra félaga og leggur því ekki sömu skyldur á lítil og meðalstór félög.

Með lögum um breytingar á lögum um ársreikninga, sem samþykkt voru á síðasta löggjafarþingi, var tilskipunin innleidd í íslenskan rétt. Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar var tekin með stjórnskipulegum fyrirvara af hálfu Íslands þar sem hún kallaði á lagabreytingar hér á landi. Því er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst svo að aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.