146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

þátttaka stjórnarflokka í sérstökum umræðum.

[15:01]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Það vakti athygli mína og margra fleiri hér í gær að tveir stjórnarflokkanna tóku ekki þátt í sérstökum umræðum. Það er auðvitað svolítið sérstakt, ekki síst í ljósi þess að á dagskránni í dag eru engin mál frá ríkisstjórninni þannig að rödd þessara flokka heyrist þá ekki hérna, tekur ekki þátt í hinu lýðræðislega tali. Maður veltir fyrir sér hvort þetta séu hin nýju stjórnmál sem þessir tveir flokkar hafa boðað. Ég vildi spyrja hæstv. forseta hvort mörg fordæmi væru fyrir slíku og hvort forseti gæti tekið slíkt saman og upplýst okkur í þingheimi um slíkt.

Jafnframt vil ég spyrja hæstv. forseta þar sem það hefur komið fram í fjölmiðlum að hæstv. sjávarútvegsráðherra hafi verið með í bígerð lagasetningu á sjómenn og jafnvel að hafa samband við forseta um að kalla þingið saman um helgina eða á mánudaginn, en þá var frí, hvort svo hafi verið. Við erum meðvituð um að slíkt frumvarp var til (Forseti hringir.) og að því hafi verið veifað framan í deiluaðila. Því held ég að nauðsynlegt sé fyrir þingheim að fá að vita hvort til hafi staðið að kalla þingið saman.