146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

þátttaka stjórnarflokka í sérstökum umræðum.

[15:08]
Horfa

Viktor Orri Valgarðsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að taka undir það að það getur ekki talist boðlegt að hvorugur samstarfsflokkur Sjálfstæðisflokksins hafi tekið til máls í sérstökum umræðum gærdagsins. Hér barði hæstv. umhverfisráðherra sér á brjóst fyrir að hafa verið á móti leiðréttingunni á sínum tíma þegar verið var að ræða hvort eðlilegt væri að skýrsla um hana hefði ekki birst fyrir kosningar. Að öðru leyti hafa þau ekkert tjáð sig, að því er ég man best, um sein skýrsluskil og virðast bara fara í felur með það. En svo fer Björt framtíð á Facebook og reynir að blekkja kjósendur til að halda að þau hafi ein verið á móti leiðréttingunni en þora ekki að koma hingað til að standa fyrir máli sínu. Hvers lags vinnubrögð eru þetta eiginlega?