146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

þátttaka stjórnarflokka í sérstökum umræðum.

[15:13]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég er búinn að vera hérna á þingi í næstum því fjórtán ár og þetta er nú einhver sú kolvitlausasta (Gripið fram í.) fýlubomba sem ég hef séð stjórnarandstöðu reyna að sprengja hér í þessum sal. Þakka þér fyrir, hv. þm. Svandís Svavarsdóttir, fyrir að gefa mér orð í þessu. Því þessi furðulega uppákoma, að allir þingflokksformenn stjórnarandstöðuflokkanna og sjö eða átta eða hvað það er þingmenn til viðbótar komi daginn eftir til að kvarta yfir fjarveru einhverra flokka úr sérstakri umræðu daginn áður, það er einhver furðulegasta fýlubomba sem ég hef séð menn reyna að sprengja í þessum sal. Ég get ekki sagt neitt annað. Ef málefnaþurrð stjórnarandstöðunnar er með þessum hætti er það átakanlegt. (Gripið fram í.)