146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

þátttaka stjórnarflokka í sérstökum umræðum.

[15:33]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Að gefnu tilefni vil ég ræða aðeins fundafyrirkomulagið óundirbúnar fyrirspurnir. Það er alveg rétt að þeim er ætlað að vera óundirbúnar og þær eru það nú alla jafna. Það er hins vegar þannig í þessum þingsal, og ég beini því nú sérstaklega til nýrra þingmanna, að hafi menn áhuga á að fá einhverja vitræna umræðu og svör við fyrirspurnum hefur það tíðkast hér í áratugi, fyrir kurteisissakir, að láta viðkomandi ráðherra vita að minnsta kosti um efni spurningar þótt ekki væri nema hálftíma fyrir fyrirspurnina svo menn viti að hverju hún lýtur, einkum og sér í lagi ef umræðuefnið er tekið upp úr fréttatíma frá kvöldinu áður, sem mjög gjarnan er raunin hérna í þessum þingsölum.

Ég svaraði því hins vegar alveg afdráttarlaust, að ég taldi, að mál það sem kom hér beint til mín í fyrirspurnum, hefur aldrei komið inn á borð íslenskra yfirvalda. Íslensk yfirvöld hafa aldrei komið að því máli. Ég hef þær upplýsingar, og þær lágu alveg fyrir, að viðkomandi einstaklingur hefur aldrei leitað til íslenskra stjórnvalda. Hann hefur leitað til bandaríska sendiráðsins og breska sendiráðsins. (Forseti hringir.) Ég veit ekki betur en að það hafi komið fram í fréttum. (Gripið fram í.) En úr því að menn lepja allt hér upp úr fréttum þá kom það fram í fréttum. Það hefur aldrei verið leitað til íslenskra stjórnvalda í þessu máli. (Gripið fram í.) Ef það er gert (Forseti hringir.) læt ég að sjálfsögðu málið til mín taka og jafnvel fleiri ráðherrar. (Gripið fram í: Hefurðu enga skoðun á því?)