146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

störf þingsins.

[15:39]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í gær spurði ég forsætisráðherra um skil á skýrslu og einbeitti mér sérstaklega að því að spyrja hvort efni skýrslunnar varðaði almannahag. Hann svaraði ekki þeirri spurningu. Ég spurði líka hvort hann hefði brotið siðareglur. Hann svaraði ekki þeirri spurningu.

Virðulegi forseti. Það er óþolandi þegar ráðherra svarar ekki spurningum. Við munum því halda áfram að spyrja forsætisráðherra þessara spurninga þar til hann svarar þeim.

Tímalína þessa máls er að um miðjan september skilaði starfshópur skýrslu til ráðuneytisins. 5. október fær ráðherra kynningu. 7. október skilar ráðherra minnisblaði til ríkisstjórnar, sem ég vil fá afrit af. 10. október svarar ráðherra því á þingi að skýrslan sé væntanleg, vitandi að hún er tilbúin. 17. október er lögð fram fyrirspurn frá nefndarritara sem ekki var svarað fyrir kosningar. 6. nóvember var frétt í Kjarnanum þar sem tilkynnt var að leggja ætti skýrsluna fram fyrir nefnd. Þá kom fram að skýrslan væri tilbúin. Skýrslan var ekki lögð fyrir nefnd í desember. 6. janúar er skýrslan svo loksins gefin út þegar Alþingi er ekki að störfum og efnahagsnefnd er ekki að störfum.

Það er rosalega mikilvægt að taka saman þessa skýrslu, var það sem forsætisráðherra sagði. Upplýsingar úr þessari skýrslu væru vonandi mjög mikilvægar fyrir málefnalega umræðu, var það sem forsætisráðherra sagði. Þetta var það sem forsætisráðherra neitaði kjósendum um, neitaði þeim um málefnalega umræðu, samkvæmt eigin mati, um þetta mál. Það var ákvörðun ráðherra að gefa skýrsluna ekki út, það var mat hans að innihald hennar varðaði greinilega ekki almannahag, annars hefði hann átt að gefa hana út.

Sem aðili, hlutaðeigandi, í Panama-skjölunum hefði hann átt að vera vanhæfur um að taka nokkurs konar ákvörðun (Forseti hringir.) um hvort gefa ætti út skýrsluna eða koma nálægt efni hennar á nokkurn hátt. Það er skilgreiningin á hagsmunaárekstri.


Efnisorð er vísa í ræðuna