146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

störf þingsins.

[15:45]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að nýta þetta tækifæri til að koma aðeins inn á málefni Hafrannsóknastofnunar. Það er stofnun sem ætti að skipta okkur öll á Íslandi gríðarlegu miklu máli og ætti að vera í öndvegi þegar kemur að starfsumhverfi og fjármagni. Eins og við lásum, einhver okkar í það minnsta, í mjög góðri úttekt Fréttablaðsins í morgun er reyndin sú að Hafrannsóknastofnun fékk ekki nægilegar fjárheimildir í fjárlagagerðinni í desember til að viðhalda þeim mælingum sem þurfti að lágmarki í uppsjávartegundum. Þrátt fyrir að hafa bent á þetta var ekki brugðist við ábendingunum. Þetta þýðir t.d. að ekki hefði verið farið í þá loðnuleiðangra sem stofnunin fór í nema fyrir það að útgerðin borgaði þá leit, sem við höfum fylgst með að skilaði umtalsverðri aukningu í loðnukvóta. Ætli verðmæti útflutningsins sem sú aukning skilaði sé ekki einhver staðar í kringum 17 milljarða.

Hafrannsóknastofnun telur sig þurfa um 300 millj. kr. í viðbót til að leita. En við eigum ekki bara að horfa á þetta út frá krónum og aurum heldur á það að vera siðferðileg ábyrgð okkar sem fiskveiðiþjóðar sem vill stunda sjálfbærar veiðar að búa vel að Hafrannsóknastofnun og rannsóknir á lífríki hafsins eiga að vera framarlega í forgangsröð okkar. Eins og Hafrannsóknastofnun hefur sjálf bent á hefur einnig verið leitað til stofnunarinnar vegna hraðrar uppbyggingar í fiskeldi og það eykur enn á þörfina til að auka fjármuni til Hafrannsóknastofnunar.


Efnisorð er vísa í ræðuna