146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

störf þingsins.

[15:48]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf):

Virðulegi forseti. Í gær fóru fram hér sérstakar umræður um skýrslu um leiðréttinguna og það vakti athygli einhverra að Björt framtíð tók ekki til máls í þeirri umræðu. Hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Katrín Jakobsdóttir, hafði einnig orð á því að í stjórnarsáttmálanum væri ekki sérstaklega minnst á húsnæðismál.

Ég vil svara þessu með því að minna menn á skýra afstöðu Bjartrar framtíðar til leiðréttingarinnar því að við höfum alltaf talað hátt og skýrt um afstöðu okkar til hennar og hún á ekki að dyljast neinum. Við atkvæðagreiðslu á leiðréttingarpeningunum af fjárlögum þann 21. des. 2013 voru einungis fjórir þingmenn sem greiddu atkvæði gegn því að fjármunirnir væru nýttir með þeim hætti að þeir væru látnir renna til þessa máls. Þar var um að ræða þingmenn Bjartrar framtíðar. Hinir tveir sem voru ekki viðstaddir atkvæðagreiðsluna hafa einnig talað opinberlega um afstöðu sína sem er á sama veg. Við teljum að peningum væri betur varið í önnur brýn verkefni og kerfi sem hafa verið svelt, t.d. heilbrigðis- og menntakerfin okkar.

Ég tók ekki þátt í umræðunni í gær, einfaldlega vegna þess að ég hef ekkert meira að segja um það. Mér finnst tíma okkar illa varið í keppni um það hver stillir hárblásarann hæst þann daginn. Hversu oft þarf ég að lýsa því, sem þingmaður í núverandi ríkisstjórn og formaður velferðarnefndar, að ég hefði viljað fá þetta fé til verkefna sem ég axla ábyrgð á í dag? Ég hefði viljað fá þetta fé til verkefna en þetta er búið og gert og ekki hægt að breyta því.

Ég nýti því tíma minn og orku frekar í að afla mér upplýsinga um hvernig hægt er að bregðast við því neyðarástandi sem ríkir á húsnæðismarkaði á Íslandi í dag.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna