146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

matvælaframleiðsla og matvælaöryggi.

[16:27]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Mig langaði til þess að minnast aðeins á tæknilegar forsendur matvælaöryggis og fæðuöryggis. Það eru ýmsar tæknilegar forsendur, svo sem vélar og efni, en sérstaklega ákveðin framtíðarfræði eða ný tækni sem ég hef minnst hér á áður og langar til þess að rifja aðeins upp, þ.e. kjötrækt.

Kjötrækt er aðferð til þess að búa til kjöt án þess að slátra þurfi dýri. Hugmyndin hefur verið uppi síðan 1912 þegar Alexis Carrel tókst að halda frumum úr hjarta kjúklings á lífi í 34 ár utan líkama kjúklingsins. Þá dóu frumurnar einungis af því að það var nemandi sem gleymdi að gefa þeim næringu.

Winston Churchill spáði því árið 1931 að innan 50 ára yrðum við laus við þann fáránleika að þurfa að rækta heilan kjúkling til þess að borða bara læri eða bringu. Árið 1995 samþykkti Matvælastofnun Bandaríkjanna að gerðar yrðu tilraunir til þess að rækta kjöt með það að markmiði að matur væri ekki vandamál í löngum geimferðum. Helsti kostur þess að rækta kjöt eru umhverfisáhrifin, en viðamiklar rannsóknir hafa verið gerðar á umhverfisáhrifum kjötræktar, sem krefst miklu minni orku, miklu minna vatns en hefðbundin dýrarækt.

Óháð því hvað Ísland gerir til þess að undirbúa tilkomu þessarar tækni við matvælaframleiðslu mun Ísland þurfa að glíma við þær breytingar sem kjötrækt mun hafa á neysluvenjur. Þótt eftirspurn eftir kjöti úr dýrum muni örugglega ekki hverfa mun hún minnka gríðarlega kannski bara vegna umhverfisáhrifanna, ef ekki líka vegna siðferðislegra áhrifa.

Það mun mögulega hafa veruleg áhrif á landbúnað og sjávarútveg þar sem einnig er hægt að rækta fiskikjöt á Íslandi sem og annars staðar í heiminum. Það er því gríðarlega mikilvægt að Ísland sé undirbúið fyrir þessar tækniframfarir, bæði með aðgerðaáætlun og lögum. Ég er einmitt með þingsályktunartillögu í smíðum fyrir hæstv. ráðherra sem er þess efnis að við flýtum okkur til að við komumst fyrr í þessa framtíð og verðum betur undirbúin fyrir þá tæknibyltingu sem kjötrækt er.