146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

matvælaframleiðsla og matvælaöryggi.

[16:34]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur fyrir að hefja máls á þessu málefni sem er, eins og margir hafa áréttað á undan mér, mjög mikilvægt og þarft að ræða. Það er hins vegar spenntur hátt boginn. Markmiðið er að ræða matvælaöryggi og fæðuöryggi, ansi vel í lagt á stuttum tíma. Ég ætla að skala þetta niður og ræða aðeins um grænmeti.

Innanlandsmarkaður fyrir landbúnaðarvörur er að breytast og er í örum vexti í takt við stóraukningu í komum erlendra ferðamanna. Innlend framleiðsla hefur ekki fyllilega annað aukinni eftirspurn. Ég tel ástæðulaust fyrir innlenda framleiðendur að óttast hóflega aukningu á innflutningi, enda eru íslenskrar afurðir fyllilega samkeppnishæfar að gæðum og gott betur og hafa sýnt það. Samkvæmt nýlegum samningi við Evrópusambandið liggur fyrir að kvótar á innflutningi fyrir landbúnaðarvörur munu aukast allverulega og í landbúnaðarráðuneytinu fer nú fram skoðun á því hvaða fyrirkomulag við úthlutun á slíkum innflutningskvótum sé heppilegast. Í þeirri vinnu þurfa hagsmunir neytenda að vera hafðir að leiðarljósi hvað varðar verð og vöruúrval.

Ágætt dæmi um vel heppnað samspil innlendrar framleiðslu og innflutnings er garðyrkjan og grænmetisræktin. Nú eru um 15 ár frá því að tollar á tilteknar tegundir grænmetis, nánar tiltekið á tómata, agúrkur og paprikur, voru nær aflagðir. Í kjölfarið lækkaði verð á grænmeti til neytenda verulega samhliða því sem innlend framleiðsla hefur aukist umtalsvert á þessum tíma, jafnvel þótt hún sé ekki fyllilega samkeppnishæf í verði. Þar spila gæðin og val neytenda inn í.

Garðyrkjubændur hafa líka á þessum tíma verið sérstaklega ötulir við að tileinka sér nýjungar í ræktun og miðla þekkingu sín á milli. (Forseti hringir.) Til dæmis í tengslum við þekkinguna kunna að vera ónýtt tækifæri til að gera enn betur í ákveðnum tegundum á útiræktuðu grænmeti. (Forseti hringir.) Það er því eitt af þeim atriðum sem mikilvægt er að verði greind í samráðshópi um endurskoðun búvörusamninganna, (Forseti hringir.) þ.e. hagkvæmni þess að taka upp uppskerutengdar greiðslur (Forseti hringir.) vegna slíkra útiræktaðra garðyrkjuafurða, kartaflna, gegn síðan mögulegri lækkun á (Forseti hringir.) eða niðurfellingu á tollvernd, og aftur með hagsmuni neytenda að leiðarljósi.