146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

matvælaframleiðsla og matvælaöryggi.

[16:39]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Það er þannig að ein af frumskyldum ríkisins, ríkisvaldsins, og stjórnvalda á hverjum tíma er að tryggja innra og ytra öryggi landsmanna. Ég hygg að æ fleirum sé að verða ljóst, ekki aðeins á Íslandi heldur líka í öðrum löndum, að fæðuöryggi verður ekki rofið frá öðru er viðkemur öryggisþáttum borgaranna. Stefna stjórnvalda þegar kemur að matvælaframleiðslu hlýtur að taka mið af öðrum öryggisþáttum þjóðarinnar. Það er ein af frumskyldum ríkisvaldsins. Fæðuöryggið felst hins vegar ekki einungis í því að tryggja nægilegt framboð af matvælum á hverjum tíma heldur líka í því að varan sem er í boði sé sú sem hún er sögð vera, hún sé heilnæm og heilbrigð og stefni ekki heilsu þjóðarinnar í hættu til lengri tíma. Ég hygg að við þurfum að ræða samspil fæðuöryggis við heilbrigðiskerfið og þann kostnað sem er fólginn í heilbrigðiskerfinu, sem er sívaxandi og verður ein af mestu áskorunum sem fjárveitingavaldið á komandi árum mun standa frammi fyrir, að fjármagna heilbrigðiskerfið. Þar mun aðgangur að heilbrigðri fæðu verða eitt af lykilatriðum (Forseti hringir.) í lýðheilsu þjóðarinnar. Ef við ætlum að ná árangri í þessum efnum verður hæstv. (Forseti hringir.) landbúnaðarráðherra að gegna þar mikilvægu hlutverki.