146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

almannatryggingar.

150. mál
[17:33]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir leiðréttinguna á mistökum mínum. Það er vissulega Tryggingastofnunin sem við á.

Við erum einmitt að rífast um lögfræði í þessum sal hér, við semjum lög og hljótum að geta rifist endalaust um lög, ekki satt? Það er það sem við gerum á hverjum degi eftir því sem ég veit best.

Mér finnst sjálfsagt mál að leiðrétta þessi mistök. Mér finnst ekki sjálfsagt að leiðrétta þau afturvirkt. Það er enginn að tala um núll og ekki núll í þessu samhengi. Hér er bara um alveg ágætlega ítarlegar breytingar að ræða. Ég hef ekki fengið fullnægjandi rök fyrir því af hverju það er réttlætanlegt í þessu tilfelli að leiðrétta mistökin afturvirkt. Leiðréttum þau þá bara þannig að það eigi við framvegis eftir þetta, ekkert mál, en ég tel mig ekki geta samþykkt afturvirka lagabreytingu nema að fram komi ítarlegur rökstuðningur fyrir því að það standist stjórnarskrá og að það valdi því ekki að ríkið verði bótaskylt.