146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

úttekt á starfsemi fjölmiðla utan höfuðborgarsvæðisins og leiðir til að tryggja stöðu þeirra.

77. mál
[18:08]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. og flutningsmanni Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir hennar framlag hér áðan. Ég sem gamall fjölmiðlahundur, ef ég má nota það orð, hef auðvitað töluverðan áhuga á þessu og ekki dregur úr mér þegar gamli Skagfirðingurinn kemur upp. Ég held að það sé rétt mat hjá flutningsmönnum að staðbundnir fjölmiðlar gegni eins og aðrir fjölmiðlar mikilvægu hlutverki. Ég hygg hins vegar að hugmyndir mínar um það hvernig best sé að standa að því að styrkja og standa vörð og búa til þann grunn sem þarf til að reka slíka fjölmiðla séu kannski pínulítið frábrugðnar flutningsmönnum, eða að minnsta kosti framsögumanni.

Þess vegna vil ég beina eftirfarandi spurningum til hv. þingmanns: Er það réttur skilningur hjá mér, eða svona tilfinning, að hv. þingmaður telji að það sé sérstakt hlutverk ríkisins að styrkja með beinum hætti svæðisbundna fjölmiðlun, sem að vísu er kannski orðið úrelt hugtak miðað við þá framþróun sem er að verða í fjölmiðlaheiminum vegna þess að fjölmiðlar eru kannski ekki lengur staðbundnir þótt þeir sérhæfi sig í fréttum af ákveðnum svæðum? Er það þannig að hv. flutningsmaður telur að það eigi að vera þannig að ríkið styrki með beinum hætti á fjárlögum, með fjárveitingum, rekstur slíkra fjölmiðla? Og ef svo er: Hvernig sér hv. þingmaður það fyrir sér að það sé gert og hvaða kröfur eru þá gerðar til viðkomandi fjölmiðils? Og svo framvegis.

Og annað sem ég (Forseti hringir.) kannski kem þá að í seinna andsvari mínu kemur að því hvernig ruðningsáhrif Ríkisútvarpsins eru á íslenskum fjölmiðlamarkaði og hvaða áhrif Ríkisútvarpið hefur á þróun og stöðu staðbundinna fjölmiðla.