146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

úttekt á starfsemi fjölmiðla utan höfuðborgarsvæðisins og leiðir til að tryggja stöðu þeirra.

77. mál
[18:16]
Horfa

Flm. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Við verðum seint sammála um þetta. Það held ég sé alveg ljóst. (ÓBK: Það getur ekki verið.) Segðu. Það getur ekki verið, nei. Auðvitað höfum við talað mikið fyrir RÚV og allt það. Að sjálfsögðu styð ég það að RÚV verði með þeim hætti sem það er í dag og ég vil efla RÚV. Ég hef hins vegar alveg verið opin fyrir því að RÚV fari af auglýsingamarkaði. En það þýðir þá auðvitað að við þurfum að vera tilbúin til að leggja aukna fjármuni í Ríkisútvarpið af hálfu ríkisins. Það veit ég að við munum ekki alveg ná saman um. Við þurfum auðvitað bara að fá fram einhverjar greiningar á stöðunni. Það er númer eitt, tvö og þrjú. Á þessu rekstrarumhverfi. Hvernig það er. Og svo getum við auðvitað metið hvert fyrir sig hversu heilbrigt eða óheilbrigt við teljum það vera. Þannig að ég held að það að setja það upp þannig að viðkomandi sé háður ríkinu, fjárlögum eða einhverju slíku, það má vel vera. En þá getum við líka sagt eins og ég nefndi t.d. skattkerfið. Ef þetta er fært niður í lægra þrepið er það bara afgreitt mál einu sinni, til dæmis. Það er ein leið sem þýðir ekki að viðkomandi sé háður ríkinu í sjálfu sér nema næsta ríkisstjórn ákveði svo að færa það á milli þrepa aftur. Þannig að það eru margar leiðir til út úr þessu.

En ég held að við getum verið sammála um að í ljósi þeirra aðstæðna sem við höfum upplifað núna undanfarin ár þurfum við að styðja og styrkja bæði rannsóknarblaðamennsku almennt og landsbyggðarfjölmiðlana þannig að við heyrum raddir allra alls staðar, eins mögulegt og það er. Það er líka dapurlegt fyrir þá sem hafa verið að reyna að sinna þessari þjónustu að sjá mál eins og þetta lagt fram enn eina ferðina, þó í vissulega breyttri útfærslu núna, því þetta snýr að sjónvarpi líka, ekki bara blöðum eða neti, ef það nær ekki enn fram að ganga, (Forseti hringir.) ef vilji þingsins er ekki til þess að styðja öfluga lýðræðislega umræðu úti um allt land.