146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

úttekt á starfsemi fjölmiðla utan höfuðborgarsvæðisins og leiðir til að tryggja stöðu þeirra.

77. mál
[18:19]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum þessa ágætu þingsályktunartillögu um úttekt á starfsemi fjölmiðla utan höfuðborgarsvæðisins. Ég tel mjög brýnt að fá þessa tillögu afgreidda. Við samþykktum tillögu á síðasta þingi frá fyrrverandi menntamálaráðherra um að skipaður yrði starfshópur til að kanna og bæta möguleika einkarekinna fjölmiðla, en mér finnst sú tillaga ekki beint ná yfir það sem kemur fram í þessari tillögu þar sem vissulega er verið að horfa á einkarekna fjölmiðla en samt við mjög sérstakar aðstæður vítt og breitt um landið. Í dag er staða margra þessara fjölmiðla, héraðsfréttablaðanna og líka þeirra sem eru með fjölmiðlun sína á netinu og í blaðaformi, mjög erfið. Ég heyri hjá sumum að það sé bara spurning um mánuði hvað menn haldi út í raun og veru. Það yrði sjónarsviptir að þeim fjölmiðlum úr flórunni. Því að þeir eru vissulega mikilvægir, bæði fyrir viðkomandi svæði og líka fyrir fólk á höfuðborgarsvæðinu sem hefur aðgengi að þeim netmiðlum, er kannski að fylgjast með fréttum af sinni gömlu heimabyggð og sjá hvað er að gerast á því svæði. Það er bara hollt og gott að allir landsmenn geti farið inn á landsbyggðarfjölmiðla á netinu eða verið í áskrift til þess að kynna sér hvað margt er gott að gerast úti á landi, geti kynnt sér umræðuna og hvernig andinn er, hvort sem er menningin á viðkomandi svæði eða pólitíkin eða hvað sem er, uppákomur sem kannski komast ekki í stóru fjölmiðlana en eru samt merkilegar í því tilliti að þær eru mikilvægar og uppbyggilegar fyrir viðkomandi svæði.

Landsbyggðarfjölmiðlar styrkja líka ímynd íbúa á viðkomandi svæði. Þeir endurspegla bæjarlífið og lífið í sveitunum og það sem er að gerast og styrkja sjálfsmynd svæðisins sem ég tel líka mjög mikilvægt og þarft. Þess vegna væri mikill sjónarsviptir að þeim fjölmiðlum sökum þess að mjög erfitt er að halda þessum fjölmiðlum úti. Margt hefur komið til. Dreifingarkostnaður og það að dreifa viðkomandi blaði frítt. Sumir hafa reynt það og byggja bara á auglýsingum en hafa samt verið með blað en ekki bara einhverjar auglýsingar og sjónvarpsdagskrár eins og sumir eru með í því formi. Það er allt annar handleggur. En menn geta ekki endalaust verið að hanga sitt hvorum megin við línuna, að vera í tapi, og menn geta ekki lengi rekið slíka fjölmiðla ef taprekstur er á þeim.

Ég kynnti mér þessi mál varðandi það sem stendur mér nærri í því kjördæmi sem ég bý í og er þingmaður fyrir. Með leyfi forseta langar mig aðeins að koma inn á umsögn sem ritstjóri Skessuhorns, Magnús Magnússon, lét mig hafa sem hann sendi inn í þennan starfshóp um einkarekna fjölmiðla, og með leyfi hans að reifa hugmyndir um hvað gæti komið til varðandi það að styrkja landsbyggðarfjölmiðla heilt yfir og ætla að stikla á stóru í þeim efnum.

Hann nefnir hér:

„Ríkið styrki með beinum hætti útgáfu fjölmiðla á landsbyggðinni sem hafa þrjá eða fleiri starfsmenn í ritstjórn, a.m.k. fimm stöðugildi alls. Horft verði til stuðnings Norðmanna sem veitt hafa byggðastyrki til þess að fjölmiðlar geti rækt skyldur sínar við landsbyggðina.“

Hann nefnir að Byggðastofnun verði falið að halda utan um slíkt byggðasystem hér á landi og landsbyggðinni verði skipt upp í sjö svæði og tryggt að öll svæði hafi fjölmiðla sem uppfylli þetta.

Svo er það dreifingaraðilinn, Íslandspóstur. Hann nefnir að tryggja þurfi í gjaldskrá Íslandspósts að gjald fyrir dreifingu merktra blaða til áskrifenda fari aldrei yfir tvöfalt verð sambærilegra blaðasendinga í svokölluðum fjölpósti. Nú er það svo að hvert eintak af áskriftarblaði kostar tíu sinnum meira í dreifingu en dreifing á sambærilegu blaði í fjölpósti. Þetta er auðvitað gífurlegur mismunur og íþyngjandi fyrir þá aðila sem standa í að halda úti slíkum miðli. Menn telji að þetta sé bara hrein og klár mismunun. Fríblöð á Íslandi séu frekar veikburða en með gjaldskrá sinni sé fyrirtæki eins og Íslandspóstur að vega að lífsmöguleikum blaða sem selja áskriftir og ættu af þeim sökum að vera einhvers megnug. Ritstjóri tekur þann pól í hæðina að það sé ekki hlutverk Íslandspósts að veikja grundvöll fyrir þessum fréttamiðlum á landsbyggðinni. Ég get alveg tekið undir það. Ég tel að Íslandspóstur megi alveg endurskoða þetta gagnvart þeim aðilum. Ég veit að hann hefur gert það að einhverju leyti í gegnum tíðina en betur má ef duga skal.

Hann nefnir hér einnig í umsögninni að hátt hlutfall af kostnaði við rekstur lítilla fjölmiðla sé tryggingagjaldið sem ríkið leggur á laun í öllum fyrirtækjum. Horfa megi til þess að lækka það. Svo er eitt sem er umhugsunarvert, því að framsögumaður nefndi að sum þessara blaða og fjölmiðla séu mjög háðir einu stóru fyrirtæki í viðkomandi kjördæmi. Stór fyrirtæki eru auðvitað ekki slæm í sjálfu sér en það er ekki gott að vera háður einhverju einu stóru fyrirtæki með auglýsingum í hverju blaði vikulega til þess að hafa burði til að halda útgáfunni gangandi. Það er ekki gott og kannski ekki mjög gæfulegt til framtíðar.

En hann nefnir í umsögninni að það þurfi sem dæmi að skylda opinberar stofnanir, eins og ríkisskattstjóra eða ráðuneyti, heilbrigðisstofnanir og skóla og aðrar opinberar stofnanir, til að auglýsa í staðarmiðlum til að ná til allra landsmanna. Ég tek hjartanlega undir þetta. Mér finnst þetta vera skylda okkar sem byggjum landið, að opinberir aðilar nýti fjölmiðla sem eru líka úti á landi því að við vitum að dagblöð í dag fara ekki endilega inn í hvert hús á landsbyggðinni og ná ekki til allra, hitt sé miklu eðlilegra að staðbundnir fjölmiðlar úti á landi séu nýttir.

Síðan má segja að sú hætta sé fyrir hendi að ef þessir fjölmiðlar fari að gefa upp öndina verði enn þá meiri samþjöppun í fjölmiðlageiranum. Ég tala bara út frá mínu hjarta, mér finnst að samþjöppunin sé nú næg fyrir og umhugsunarvert í hvaða átt hún þróast. Þess vegna skiptir miklu máli að standa líka vörð um þessi litlu héraðsfréttablöð og miðla, hvort sem eru á stafrænu formi eða í blaðaformi, því að það stuðlar að lýðræðislegri umræðu, stuðlar að bættri sjálfsmynd og upplýsingum innan viðkomandi landsvæða og er eitthvað sem getur líka verið til þess að tengja betur umræðuna á milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar, að hafa aðgengi að þessum fjölmiðlum til að sjá hvað er í gangi á landsbyggðinni og öfugt.

Svo ég styð heils hugar að þingsályktunartillagan fái jákvæðar undirtektir og verði vonandi samþykkt í þetta skipti og fái afgreiðslu og þessi starfshópur verði settur af stað.