146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

úttekt á starfsemi fjölmiðla utan höfuðborgarsvæðisins og leiðir til að tryggja stöðu þeirra.

77. mál
[18:42]
Horfa

Flm. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég ætlaði rétt að koma hingað til að ljúka þessari umræðu. Ég þakka fyrir hana. Ég heyri að þingmenn eru almennt spenntir fyrir henni. Hvað varðar störf nefndarinnar er ágætt að minna á að margs konar rannsóknir hafa farið fram og ýmislegt hefur verið gert. Þetta er ekki alveg nýtt af nálinni. Árið 2014 var haldinn í Háskóla Íslands hádegisfundur sem bar yfirskriftina „Fjölmiðlar, lýðræði og samfélagsumræða“. Þar fjölluðu nokkrir aðilar um þessi mál, þ.e. um lýðræðislegt hlutverk fjölmiðla — þessa boðmiðlun, hvernig hún hefði verið að breytast og annað slíkt. Þar á meðal var Hrafnkell Lárusson, doktorsnemi í sagnfræði, sem hefur skrifað töluvert og rannsakað svæðismiðla, sérstaklega fyrir austan. Sama má segja um Birgi Guðmundsson, dósent við hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri. Hann er líklega sá íslenski fræðimaður sem hefur sinnt hvað mest rannsóknum á svæðisbundinni fjölmiðlun. Hann birti grein árið 2012 og tengir það einmitt við rannsóknarskýrslu Alþingis sem ég held að sé ágætt að rifja upp. Í 8. bindi er hlutverk fjölmiðla gert að umtalsefni, en þríþætt hlutverk þeirra „felur í senn í sér aðhaldshlutverk, upplýsingahlutverk og umræðuhlutverk“.

Um það segir:

„Aðhaldshlutverkið þýðir að fjölmiðlar leitist við að vernda borgarana fyrir misbeitingu valds, svo sem með því að veita stjórnvöldum og fjármálalífinu aðhald. Upplýsingahlutverkið felur í sér að fjölmiðlar láti borgurunum í té áreiðanlegar upplýsingar og vandaða greiningu á samfélagsmálum. Öflugir sjálfstæðir fjölmiðlar skapa þannig forsendur fyrir upplýsta almenna umræðu sem er grundvallaratriði í lýðræðisríki.“

Eins og við höfum verið að ræða hér í dag er mjög mikilvægt að raddir alls staðar að af landinu heyrist. Það hefur því miður ekki verið þannig. Umræðan hefur ekki endilega endurspeglað sjálfsmynd alls landsins heldur miklu frekar landsdekkandi miðla sem horfa í sitt nærumhverfi. Ég get líka nefnt sem dæmi að þingmaður utan af landi er kannski boðaður í kortersviðtal klukkan tvö á laugardegi eða eitthvað slíkt, er jafnvel kominn heim í hérað, þannig að það er ekki endilega einfalt fyrir okkur þingmenn að taka þátt í samfélagsumræðunni sem slíkri. Þetta á ekki bara við um þingmenn heldur marga aðra sem hafa lítil tök á að koma málefnum sinna svæða á framfæri. Úr þessu hefur því miður verið dregið, eins og ég sagði áðan, hvað varðar hlutverk RÚV, sem er þó aðeins að reyna að klóra í bakkann, vegna þess að það fær ekki nægilegan fjárstyrk héðan frá þingi. Við þurfum auðvitað að reyna að breyta og bæta til þess að efla það hlutverk RÚV en líka sjálfstæðu fjölmiðlana sem dreifa sér um allt land. Ég nefndi sem dæmi N4 og við þekkjum fleiri stöðvar, Hringbraut, ÍNN o.fl. En ég held að fyrir utan blöðin sé mikilvægt að þessir aðilar þurfi ekki að búa við að vera í samkeppni, þ.e. kaupa sér dreifingu hjá samkeppnisaðila.

Frú forseti. Ég þakka fyrir umræðuna og vona svo sannarlega að allsherjar- og menntamálanefndarfulltrúar verði nú kraftmiklir í ljósi þess að það er ekki mjög mikið starf í nefndinni, þ.e. að fá inn gesti og reyna að drífa þessi mál í gegn. Það er eiginlega óþolandi að verið sé að leggja hér fram mál frá 2005 eða þar um bil, að ég held, með einhverri uppfærslu að sjálfsögðu.