146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

stytting biðlista á kvennadeildum.

115. mál
[18:47]
Horfa

Flm. (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um að Alþingi álykti að fela hæstv. heilbrigðisráðherra að hefja nú þegar átak í að stytta biðlista eftir aðgerðum á kvennadeildum.

Ég er fyrsti flutningsmaður tillögunnar en auk mín eru flutningsmenn hv. þm. Nichole Leigh Mosty, Einar Brynjólfsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Eygló Harðardóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.

Mig langar að nota þetta tækifæri og þakka þessum hv. þingmönnum sem koma úr fjórum flokkum hér á Alþingi fyrir að leggja þessu mikilvæga máli lið.

Virðulegur forseti. Í greinargerð með þessari þingsályktunartillögu segir:

„Hér er lagt til að átak verði gert í að stytta biðlista eftir aðgerðum á kvennadeildum. Upplýsingar eru um að um 300 konur bíði eftir því að komast í aðgerð á kvennadeild Landspítala og biðtíminn geti verið allt að þrjú ár. Aðgerðirnar sem hér um ræðir eru einkum vegna blöðrusigs, ristilsigs, legsigs og þvagleka.

Á dögunum“ — það er reyndar þegar umrædd þingsályktunartillaga var skrifuð, það var á síðasta ári — „sendi Kvenfélagasamband Íslands frá sér tilkynningu um málið en þar segir m.a.: „Svo virðist vera að konur sem þurfa á aðgerðum sem þessum að halda verði út undan þegar verið er að útdeila peningunum í heilbrigðiskerfinu, Kvenfélagasambandið bendir á að þar er um óbeina kynbundna mismunun að ræða. Það þarf ekki auðugt ímyndunarafl til að sjá að það að þurfa að bíða svo lengi eftir að komast í þessar aðgerðir hefur gríðarlega mikil áhrif á lífsgæði kvennanna sem fyrir því verða.“

Flutningsmenn tillögu þessarar taka undir það að löng bið eftir aðgerðum af þessu tagi hafi gríðarlega mikil áhrif á lífsgæði kvennanna sem þar um ræðir. Því er lagt til að heilbrigðisráðherra verði falið að hefja nú þegar átak í að stytta biðlistana. Um leið benda flutningsmenn á mikilvægi þess að efla enn frekar heilbrigðisstofnanir víða um landið og fela þeim verkefni. Sem dæmi má nefna að Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi rekur kvennadeild sem væri eflaust vel til þess fallin að taka við verkefnum sem þessum.“

Taka ber fram að hér er Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi tekin sem dæmi. Sú stofnun hefur áður tekið þátt í átaki um að stytta biðlista. Má þar nefna átak sem hófst árið 2016 en þá var ráðist í að stytta til muna bið fólks eftir liðskiptaaðgerðum, hjartaþræðingum og augasteinsaðgerðum. Þar voru stór skref stigin í að bæta þjónustu við sjúklinga, auka lífsgæði fólks og styrkja heilbrigðiskerfið. Markmið þess átaks var að hámarksbið eftir aðgerð væri ekki lengri en 90 dagar og áformað var, þegar farið var í það átak, að verja 1.663 millj. kr. til þessa verkefnis á árunum 2016–2018. Á síðasta ári var u.þ.b. helmingi fjármagnsins ráðstafað. Í því átaki voru gerðir samningar við Landspítalann, Sjúkrahúsið á Akureyri, Heilbrigðisstofnun Vesturlands og fyrirtækið Sjónlag. Þetta var gert á þann veg að samið var sérstaklega um fjármuni til að framkvæma tilteknar aðgerðir umfram það sem stofnanirnar höfðu ráðgert miðað við rekstrarfé af fjárlögum.

Hér leggjum við flutningsmenn þessarar tillögu til að sambærilegt átak verði gert varðandi aðgerðir á kvennadeildum. Samkvæmt ályktun Kvenfélagasambands Íslands er litið svo á að konur sem þurfa á aðgerðum þessum að halda hafi orðið út undan eins og segir að framan segir.

Í þessu samhengi verð ég að minnast á það í þessari stuttu ræðu að í samtölum mínum við fagfólk hefur komið fram að bent hafi verið á til töluverðs langs tíma að átaks sé þörf í þessum aðgerðum sem og öðrum. Það hafi þó ekki verið brugðist við því ákalli á undanförnum árum. Því er þarft að taka undir ályktun Kvenfélagasambands Íslands og styðja um leið við orð fagfólks sem hefur rætt mikilvægi þess að ráðist verði í átak í aðgerðum á kvennadeildum.

Það þarf jafnframt að horfa til þess að einnig hefur verið umræða og fréttir komið fram um að skortur sé á sérfræðingum á kvennadeildum. Staðan er í einhverjum tilvikum sú að í dag eru læknar mun sérhæfðari í verkefnum en áður. Það hefur komið fram í umræðu að stundum geti verið erfitt og flókið að finna lækna sem eru bæði sérhæfðir í kvennaaðgerðunum og í fæðingarhjálp. Áður fyrr var mjög oft að finna slíkan sérfræðing í einum lækni.

Ég tel í ljósi þessa mjög mikilvægt að horfa til þess í fjárúthlutunum til stofnana að jafnvel þurfi fleiri stöðugildi til að sinna mikilvægu hlutverki ákveðinna stofnana. Jafnframt er hægt að skoða samlegðaráhrif þess að sérfræðingar fari á milli stofnana og sinni þeim verkefnum, en mikilvægt er að standa vörð um þessa starfsemi víða um landið.

Virðulegur forseti. Mig langar að vekja athygli á fyrirspurn minni á þskj. 576 frá árinu 2014 sem ég fékk síðan svör við á þskj. 629 þann 20. febrúar það ár. Þar spurði ég einmitt þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra út í biðlista eftir aðgerðum á kvennadeildum. Einnig spurði ég hversu margar aðgerðir væru gerðar á þeim stofnunum sem framkvæma aðgerðir sem þessar. Þar kom fram, vegna spurningar minnar um biðlista eftir aðgerðum, að biðtími eftir aðgerðum á sjúkrahúsum væri mjög mismunandi eftir því hvaða aðgerð það væri. Þær tölur sem ég fékk í svari við fyrirspurn minni á eru reyndar frá október 2013 og orðnar töluvert gamlar. Þá var biðtími eftir aðgerð vegna legsigs og brottnámi legs mun lengri á Landspítalanum en bæði á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi og á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Ég leitaði að upplýsingum frá embætti landlæknis og þar eru nýlegar tölur. Þar kemur fram á vef og í upplýsingum frá embætti landlæknis að nú í dag sé staðan sú að 61% þeirra sem bíða eftir aðgerð eins og brottnámi legs hefur beðið lengur en 90 daga. Sú bið hefur lengst frá síðustu mælingum en þá biðu 53% sjúklinga lengur en 90 daga. Í sama yfirliti frá embætti landlæknis, en um er að ræða nýjustu tölur sem ég fann, alla vega á netinu, kemur einnig fram að 78% þeirra sem bíða eftir aðgerðum á grindarholslíffærum bíða lengur en 90 daga. Það eru reyndar mjög sambærilegar tölur og voru frá síðustu mælingum þar á undan.

Ég ætla aftur að vitna í fyrirspurn mína sem ég fékk svör við 20. febrúar 2014. Þar spurði ég nefnilega líka hversu margar aðgerðir væru framkvæmdar árlega á hverri deild. Ég spurði um þær kvennadeildir sem starfræktar eru í dag, þ.e. á Landspítalanum, Akureyri og Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi. Í svörunum kemur fram að 699 stærri aðgerðir eru framkvæmdar á Landspítala á ári hverju, 102 á Sjúkrahúsinu á Akureyri en 275 á Akranesi. Hvað varðar minni aðgerðir eru 1.389 aðgerðir framkvæmdar árlega á Landspítala, 251 á Akureyri og 408 á Akranesi. Þessar tölur sýna okkur það hversu öflug kvennadeildin á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi er, því að þar eru mun færri stöðugildi en bæði á Landspítalanum og á Akureyri.

Í svarinu kemur einnig fram að á Sjúkrahúsinu á Akureyri er takmarkaður tími til aðgerða umfram það sem nú er gert á skurðstofu, sem hefur áhrif á afköst kvennadeildar og fjölga mætti aðgerðum með óbreyttri læknamönnun ef framangreindir flöskuhálsar væru ekki til staðar. Á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi er mögulegt við núverandi aðstæður að bæta lítillega við aðgerðir sem hægt væri að gera á dag- og göngudeild en til að fjölga stærri og þyngri kvensjúkdómaaðgerðum þyrfti að endurskipuleggja starfsemi skurðstofa og styrkja læknamönnun.

Að lokum spurði ég í umræddri fyrirspurn hvort þær konur sem bíða eftir aðgerðum á kvennadeild Landspítala væru upplýstar um það ef biðtíminn væri styttri á Sjúkrahúsinu á Akureyri eða Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi. Þar kom fram að konum sem leita svara hjá kvennadeild Landspítala um hvort hægt sé að fá aðgerð framkvæmda með styttri biðtíma annars staðar sé bent á að ræða við tilvísandi lækni sem meti í hverju tilfelli hvort slíkt sé mögulegt. Í svari frá Heilbrigðisstofnun Vesturlands kom fram að líklega væri nokkuð tilviljanakennt hvernig þessari upplýsingagjöf væri háttað og því um brotalöm að ræða með hliðsjón af 18. gr. laga um réttindi sjúklinga. Í svari Sjúkrahússins á Akureyri kom fram að ekki lægju fyrir upplýsingar um hvort eða í hversu ríkum mæli konur sem bíða aðgerða á kvennadeild Landspítala væru upplýstar um hvort biðlisti Sjúkrahússins á Akureyri vegna sambærilegrar þjónustu væri styttri en á Landspítala.

18. gr. laga um réttindi sjúklinga hljómar á þennan veg, með leyfi forseta:

„Þurfi sjúklingur að bíða eftir meðferð skal læknir, sem hann leitar til, gefa skýringar á biðinni ásamt upplýsingum um áætlaðan biðtíma.

Skylt er að gera sjúklingi grein fyrir því ef unnt er að fá þá meðferð sem hann þarfnast fyrr annars staðar.“

Virðulegur forseti. Ég ætla hér í lokaorðum mínum að lesa upp frétt um ályktun Kvenfélagasambands Íslands. Þar segir, með leyfi forseta:

„Formannaráðsfundur Kvenfélagasambands Íslands skorar á væntanlegan heilbrigðisráðherra,“ — reyndar hæstv. heilbrigðisráðherra — „nýja ríkisstjórn og nýkjörna alþingismenn að gera átak í að leysa það „ófremdarástand“ sem skapast hefur þar sem konur geta þurft að bíða í allt að þrjú ár eftir að komast í grindarbotnsaðgerðir.“

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kvenfélagasambandinu. Þar segir að um 300 konur bíði nú eftir að komast í aðgerðir á kvennadeild Landspítalans. Aðgerðirnar sem um ræðir eru einkum vegna blöðrusigs, ristilsigs, legsigs og þvagleka.

Orðrétt segir í ályktun sambandsins:

„Svo virðist vera að konur sem þurfa á aðgerðum sem þessum að halda, verði út undan þegar verið er að útdeila peningunum í heilbrigðiskerfinu. Kvenfélagasambandið bendir á að þar er um óbeina kynbundna mismunun að ræða.

Það þarf ekki auðugt ímyndunarafl til að sjá að það að þurfa að bíða svo lengi eftir að komast í þessar aðgerðir hefur gríðarlega mikil áhrif á lífsgæði kvennanna sem fyrir því verða.

Óbein mismunun á sér stað þegar hlutlaust skilyrði, viðmið eða ráðstöfun kemur hlutfallslega verr við annað kynið nema slíkt sé viðeigandi, nauðsynlegt eða réttlætanlegt vegna hlutlægra þátta óháð kyni. Þessi hlutlausu skilyrði, viðmið eða ráðstöfun getur verið lög, reglugerð, stefna eða aðrar aðgerðir.“

Að lokinni umræðu þessari vísa ég málinu til hv. velferðarnefndar Alþingis og vona að málið hljóti efnislega vinnslu innan nefndarinnar.