146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

stytting biðlista á kvennadeildum.

115. mál
[19:07]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég leyfi mér að þakka hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur fyrir að bera þetta mál hér upp. Þetta er aðkallandi áhyggjuefni sem ekki hefur verið hægt að leysa svo sómi sé að undanfarin ár. Biðlistar lengjast og fleiri og fleiri konur búa við mjög slæman kost.

Stjórnvöld höfðu frumkvæði að átaki til styttingar biðlistum sem heilbrigðisráðherra kynnti í mars árið 2016. Átak þetta var sett í skorður og framkvæmt samkvæmt ákvörðun ráðherra að undangengnu mati og í samráði við embætti landlæknis. Þrír aðgerðaflokkar voru teknir fyrir þar sem biðlistar voru orðnir óásættanlega langir. Það voru, eins og fram hefur komið, liðskiptaaðgerðir, augasteinsaðgerðir og hjartaþræðingar. Framkvæmd þessa verkefnis gengur nokkuð vel og eftir áætlun en betur má ef duga skal. Biðlistar styttast ekki sem nemur þeirri þörf sem blasir við og spáð hefur verið. Þetta á þó einkum við um liðskiptaaðgerðir. Hvað varðar hina tvo flokkana hefur tekist að ná þeim niður í viðráðanlegt horf, en liðskiptaaðgerðum verður að fjölga því að þeir biðlistar halda áfram að lengjast.

Ljóst var á þeim tíma sem átakið fór í gang að biðlistar í kvennaaðgerðir var orðnir allt of langir en valið að aðhafast ekkert frekar á þeim tíma. Vakin var athygli ráðamanna á þessu í aðdraganda átaksins en ákveðið var að fara þá leið sem landlæknir mælti með, að takmarka sig við þessa þrjá flokka. Þessar aðgerðir eru aðkallandi því að þessi langa bið veldur konum miklum óþægindum og ýmislegri þjáningu og vinnutapi eins og komið hefur fram. Þær hafa hins vegar sýnt mikið þolgæði og nánast borið harm sinn í hljóði. Þó hafa hagsmunasamtök kvenna tekið málið upp, góðu heilli, og nýverið vakið athygli á vandanum.

Það bíða líklega öllu fleiri en 300 konur, því miður, eftir aðgerðum og þessi bið rýrir mjög lífsgæði eins og fram hefur komið hjá málshefjanda. Ég hef því miður grun um að það séu nálægt 400 eða á fimmta hundrað konur sem bíða. Þessar aðgerðir eru framkvæmdar á þremur sjúkrahúsum í landinu og það er mögulegt að bæta í og gera betur en það kostar aukalega peninga. Ég hef lagt fram skriflega fyrirspurn til heilbrigðisráðherra um framvindu átaksverkefnisins um biðlista og spyr m.a. hvort áform séu um að bæta við aðgerðaflokkum og þá sérstaklega horft til kvennaaðgerða. Samkvæmt upplýsingum sem fyrir liggja hefur ekki verið tekin ákvörðun um frekara átak til styttingar biðlistum en við væntum þess að sú tillaga sem hér liggur frammi ýti undir að heilbrigðisyfirvöld taki við sér.