146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

heildstæð stefna í málefnum einstaklinga með heilabilun.

62. mál
[19:32]
Horfa

Flm. (Guðjón S. Brjánsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil að lokum þakka fyrir umræðuna. Því fólki sem býr við heilabilun fylgir stór hópur aðstandenda, ættingja; fjölskyldur sem hlúa að sínu fólki eftir föngum. Sá hópur þarf stuðning. Við þurfum að skipuleggja okkur. Hér er ekki verið að kalla eftir miklum peningum til þess að hrinda af stað einhverju stórvirki, heldur fyrst og fremst umræðunni og breyttu skipulagi, aukinni vitundarvakningu og stuðningi við það starf sem þegar er verið að vinna.

Þetta er forgangsverkefni í Evrópu, meðal Evrópuþjóðanna, innan Evrópusambandsins. Menn taka það mjög alvarlega. Horfurnar eru válegar. Það sama er að segja í Bandaríkjunum. Það eru miklar rannsóknir í gangi á þessu sviði. Við heyrum alltaf annað veifið af einhverjum nýjum lyfjategundum sem við vonum að skili um síðir árangri. Í dag erum við ekki komin alveg nógu langt á veg, en okkur miðar í áttina.