146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

dagskrá næsta fundar.

[10:40]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég vil segja eitt. Mér sýnist — nei, það eru allir ráðherrarnir á rauðu. Þetta fer ekki í gegn núna sem þýðir að málið fer ekki á dagskrá strax, sem þýðir að fimm dagar eru í það að allt fari mögulega í upplausn á vinnumarkaði. Alþingi ætlar ekki að grípa inn í strax. Það er enn þá tækifæri seinna í dag. Forseti getur gert það. Það er enn þá tækifæri á morgun. Það verður tækifæri á mánudaginn og svo verður síðasta tækifærið á þriðjudaginn.

Ég vil beina því til þeirra aðila á vinnumarkaði sem eru ekki ánægðir með þá stöðu að frumvarpið hefur verið lagt fram, frumvarp um kjararáð, og þeir geta sent inn umsagnir við málið þótt það sé ekki farið til nefndar. Það er það sem við vildum núna, að fá málið til nefndar og kalla eftir því gestir kæmu og umsagnir yrðu sendar inn. Við getum ekki fengið gesti fyrir nefnd af því að málið er ekki farið til nefndar en það getur hver sem er, hvaða borgari í landinu sem er, sent inn umsagnir um málið. Ég hvet til þess að þeir sem hafa áhuga sendi inn umsagnir, það skapar þrýsting á að fá þetta mál á dagskrá.