146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

aðgerðir gegn skattundanskotum og aflandsfélögum.

[10:42]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Mig langar að inna hæstv. fjármálaráðherra eftir nánari skýringum á orðum sem hann lét falla í Kastljósi þann 31. janúar síðastliðinn þar sem hann var spurður talsvert út í málefni sem varðar peningaþvætti, aflandsfélög og skattundanskot. Þar sagði fjármálaráðherra eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Nú ætlum við að taka á þessu af mikilli hörku, bæði með innanríkisráðuneytinu, við ætlum að vinna með skattrannsóknarstjóra, ríkisskattstjóra, öllum skattstofnunum ríkisins. Ég held að það hafi kannski vantað svona pólitískan baráttumann fyrir þessu. Þetta hefur verið svolítið eins og þú kallar“ — og vitnar hæstv. ráðherra þar til Helga Seljans umsjónarmanns — „einhver gæi í fjármálaráðuneytinu sem var ekki nógu sniðugur. Það kannski vatnaði það að fjármálaráðherrann sjálfur segði: Heyrðu, við ætlum alveg að berjast fyrir þessu, við ætlum að segja þessari tegund af svindli stríð á hendur. Þá erum við bæði að tala um aflandsundanskotin og svarta hagkerfið og við verðum bara að berjast við það með öllum þeim ráðum sem við getum.“

Um leið og ég fagna yfirlýsingu hæstv. ráðherra um að þessi mál verði forgangsmál í ráðuneyti hans og undir hans forystu vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Má þá skilja orð hans sem svo að það hafi orðið veruleg stefnubreyting í ráðuneytinu við komu hans þangað? Til hvers er hann að vísa með þessum ummælum? Er hann þá að vísa til forvera síns í starfi sem nú gegnir embætti forsætisráðherra, að sá hæstv. fjármálaráðherra hafi ekki verið pólitískur baráttumaður gegn skattundanskotum og aflandsfélögum?