146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

aðgerðir gegn skattundanskotum og aflandsfélögum.

[10:44]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Virðulegi forseti. Nei, það er ekki svo að ég hafi verið að vísa í hæstv. forsætisráðherra. Þetta er, eins og tilvitnunin bar með sér, orðalag sem ég gríp til á þessu stigi. Ég hef hins vegar sagt það að ég legg mikla áherslu á að berjast gegn skattundanskotum, hvort sem það er í aflandsfélögum, í svarta hagkerfinu eða með öðrum leiðum.

Ég fagna því að hv. þingmaður hefur gefið mér tækifæri til þess að segja frá því hér að ég er búinn að skipa tvær nefndir, annars vegar nefnd til þess að halda áfram athugun á spurningum sem upp komu vegna aflandsskýrslunnar svonefndu og hins vegar nefnd sem sérstaklega mun fjalla um svarta hagkerfið og leiðir til þess að minnka það og draga úr hættu á skattundanskotum þar. Báðar þessar nefndir eiga að skila álitum núna í vor. Ég vonast til þess að niðurstaðan af starfi þeirra verði sú að við getum barist af mikilli hörku gegn svarta hagkerfinu og gegn aflandsfélögunum, sem ég hygg að bæði ég og hv. þingmaður séum sammála um að er mikil meinsemd á íslensku samfélagi.