146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

aðkoma ráðherra að lausn sjómannaverkfallsins.

[10:48]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Ég held að mikilvægt sé að draga fram að það er mikið fagnaðarefni að við stöndum nú frammi fyrir því að skipin okkar eru komin til hafs á ný og byrjuð að sigla aftur til baka í hafnir með fullfermi. Það er líka mjög mikilvægt að samningsaðilar leystu þetta sín á milli, án formlegrar aðkomu ríkisins á endanum. Það er mikið ánægjuefni að deilunni er lokið, þeirri tíu vikna langvinnu deilu þar sem menn áttuðu sig algjörlega á sinni ábyrgð. Þeir fundir og þau samtöl sem ég hef átt, bæði með útgerðarmönnum og forystumönnum í sjómannahreyfingunni, voru mjög skýr. Þeir áttuðu sig á ábyrgð sinni og vildu axla hana. Þetta var snúið, um tíma áttu menn erfitt með að tala saman. Á endanum var það þannig að það upplegg sem ég kynnti sjómönnum sem og útgerðarmönnum — rétt er að draga fram að það upplegg fólst m.a. í ákveðinni aðkomu útgerðarinnar, þeir komu með mjög markvissum hætti inn í það tilboð sem ég kynnti síðan sjómönnum — það var upplegg sem þeir fóru síðan ekki eftir. Þeir ákváðu að leysa þetta sín á milli.

Þess vegna tel ég mikilvægt núna þegar deilan er leyst, skrifað hefur verið undir samninga, menn eru farnir, eins og ég sagði áðan, til hafs á ný, að við horfum fram á við og reynum að byggja upp sátt og tryggja sátt í kringum sjávarútveginn, reynum að læra af þessari deilu. Hvað er það sem við lærum? Ég held að þau ákvæði sem eru í samningunum séu mjög mikilvæg, að menn átti sig á því hvernig best er að semja. Eigum við ekki að horfast svolítið í augu við raunveruleikann, eins og t.d. það að menn semji eftir hugsanlega skipa- eða útgerðarflokkum? Ég held að það sé mikilvægur hlutur sem menn fara núna sameiginlega yfir, þ.e. forystumenn sjómanna og útgerðarmanna.

Ég held að nú sé ekkert annað eftir en að horfa fram á við til að reyna að tryggja enn frekari sátt um þessa mikilvægu atvinnugrein.