146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

kostnaður við ný krabbameinslyf.

[10:58]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Ný ríkisstjórn setur heilbrigðismál, heilbrigðisþjónustu, í forgang. Talað er um í samstarfsyfirlýsingunni að mótuð verði heilbrigðisstefna sem samhæfi og treysti heilbrigðisþjónustuna og bæti lýðheilsu og stuðli að heilbrigði landsmanna. Allt eru þetta nú góð orð og við getum væntanlega öll tekið undir það. Við höfum lengst af haft metnað til þess að vera í fararbroddi í heilbrigðisþjónustu, að okkar fólk geti vænst þess, verði það veikt, að njóta góðrar heilbrigðisþjónustu og góðs heilbrigðiskerfis.

Í aðdraganda kosninga var sérstaklega fjallað um spurningar sem komu frá Krafti, sem er stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þeirra. Þá svaraði Björt framtíð, með leyfi forseta, vegna spurninga um að stjórnvöld veittu ekki nægilegt fé til lyfjakaupa fyrir krabbameinssjúklinga:

„Björt framtíð mundi ekki láta það gerast á sinni vakt að krabbameinssjúkt fólk fengi ekki bestu lyf sem völ væri á vegna kvótakerfis lyfjamála eða fjárhagsstöðu eins og nú er.“

Hæstv. ráðherra var spurður í fjölmiðlum nú á dögunum um þessi mál og nákvæmlega um þessa yfirlýsingu í aðdraganda kosninga. Þá svarar hann því að málaflokkurinn hafi farið alvarlega fram úr áætlunum. Ég spyr: Hvað þýðir í huga hæstv. heilbrigðisráðherra að setja heilbrigðismál í forgrunn? Gildir það ekki um krabbameinssjúklinga að fjárhagsstaða verði ekki látin koma í veg fyrir að krabbameinsveikir Íslendingar megi búast við því að njóta bestu mögulegrar þjónustu?