146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

kostnaður við ný krabbameinslyf.

[11:03]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Ég vil minna hæstv. ráðherra á það að svar Bjartrar framtíðar í aðdraganda kosninga fól beinlínis í sér að það mundi ekki gerast á vakt Bjartrar framtíðar að krabbameinssjúkt fólk fengi ekki bestu lyf sem völ væri á. Þetta eru stór orð. Þau eru ekki sett fram með neinum skilyrðum eða neðanmálsgreinum. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra hvort hann hyggist ekki leggja til, í vinnu við frumvarp til fjáraukalaga á yfirstandandi ári, að sett verði viðhlítandi fjármagn í þennan tiltekna lið, málaflokk, sem undir hann heyrir, til að tryggja að krabbameinssjúkt fólk njóti bestu lyfja sem völ eru á í heiminum eins fljótt og auðið er á vakt Bjartrar framtíðar.