146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

virðisaukaskattur af íþrótta- og æskulýðsstarfi.

[11:09]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir svörin. Ég get ekki annað sagt en að ég bíði spenntur eftir tillögum og niðurstöðu þessa hóps er snýr að því máli sem ég nefndi, sem ég tel afar brýnt og mikilvægt og geti hjálpað núverandi hæstv. ríkisstjórn að efla forvarnir og almenna lýðheilsu í gegnum skipulagt æskulýðsstarf barna og unglinga. Rannsóknir staðfesta forvarnagildi íþrótta og að þátttaka barna í slíku skipulögðu starfi dregur mjög úr líkum á hvers konar frávikshegðun. Ég trúi ekki öðru en að hæstv. ríkisstjórn nýti þetta sterkasta vopn í forvarnabaráttu.