146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

samgöngur á höfuðborgarsvæðinu.

[11:16]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu. Áherslur ríkisins koma fram í samgönguáætlun. Ríkisvaldið hefur almennt unnið að meginmarkmiðum samgönguáætlunar um greiðar, öruggar, umhverfisvænar og hagkvæmar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu jafnt sem annars staðar á landinu. Eins og við vitum eru stofnvegir og umferðarmestu leiðir vegakerfisins á höfuðborgarsvæðinu á ábyrgð Vegagerðarinnar en gatnakerfið á ábyrgð sveitarfélaga sem eru veghaldarar. Skipulagsvaldið varðandi uppbyggingu umferðarmannvirkja er aftur á móti í höndum sveitarfélaga og þau hafa mest um það að segja hvernig uppbygging og þróun umferðarmannvirkja verður í framtíðinni. Í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins sem staðfest var 29. júní 2015 er kveðið á um að svæðisskipulagsnefnd í samvinnu við Vegagerðina greini ástand núverandi stofnvegakerfis, skilgreini til framtíðar hver uppbygging einstakra vegarkafla þarf að vera. Þeirri vinnu átti að ljúka á síðasta ári en reiknað er með að það verði ekki fyrr en í haust, á þessu ári.

Mig skortir ekki vilja til þess að stuðla að bættum samgöngum á höfuðborgarsvæðinu sem og annars staðar á landinu, og greiðari umferð, en fjárveitingar Alþingis eru auðvitað takmarkandi þáttur eins og allir vita hér og okkur er mjög þröngur stakkur sniðinn eins og útlitið er fyrir þetta ár.

Umferð á höfuðborgarsvæðinu hefur aukist mikið á síðustu árum og erfiðasti flöskuhálsinn í bílaumferð á höfuðborgarsvæðinu í dag er gatnamót Reykjanesbrautar og Bústaðavegar. Í samgönguáætlun er reiknað með að þar verði mislæg gatnamót, þ.e. á þeim stað, en vandinn er sá að ekki hefur náðst samkomulag við skipulagsyfirvöld í Reykjavík um það. Svipaða sögu er að segja um gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar sem eru einhver hættulegustu gatnamót landsins. Þar virðist vilji borgarinnar heldur ekki vera fyrir hendi varðandi mislæg gatnamót.

En hvað sem því líður eru brýnustu framkvæmdir á vegum höfuðborgarsvæðisins á næstu árum breikkun vega í gegnum Hafnarfjörð, Mosfellsbæ og um Kjalarnes, breikkun Suðurlandsvegar út úr borginni, gatnamót Hafnarfjarðarvegar við Vífilsstaðaveg, framhald Arnarnesvegar, Breiðholtsbraut, gatnamót Reykjanesbrautar við Bústaðaveg, að ógleymdri Sundabraut.

Eins og menn muna var gerður samningur milli ríkis og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu árið 2012 þar sem ríkið skuldbindur sig til að styrkja almenningssamgöngur í tíu ár um sirka 900 milljónir á ári og það var gert m.a. gegn því að ýmsum stórum framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu yrði frestað. Forsendan fyrir þessu var fjölgun farþega með almenningssamgöngum, að hún myndi tvöfaldast á tímabilinu þannig að dregið yrði úr uppbyggingarþörf á uppbyggingu samgöngumannvirkja. Þetta hefur því miður ekki gengið eftir eins og vonast var til því að farþegum með almenningssamgöngum hefur aðeins fjölgað um 14% á árunum 2012–2015 að teknu tilliti til fólksfjölgunar. Í þessu sambandi velti ég fyrir mér hvort tímabært sé að menn skoði árangurinn af þessu samstarfi og endurmeti hann og hvort verið sé að nýta þetta mikla fjármagn með réttum áherslum.

Borgarlínan hefur komið hér til umræðu og við í ríkisstjórninni fögnum slíkri umræðu og að sú samstaða endurspeglist sem er á milli sveitarfélaganna í þessu mikilvæga máli og munum taka heils hugar þátt í því og er Vegagerðin reyndar og starfsmenn ráðuneytisins að koma að vinnu í kringum þessi mál.

Eins og ég nefndi eru ljósastýrð gatnamót á mótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar enn þau hættulegustu í landinu og slysatíðni há með tilheyrandi kostnaði. Það er slæmt að við skulum ekki ná samstöðu við borgaryfirvöld um að fara í mikilvægar framkvæmdir á þessum hættulegustu gatnamótum landsins.

Til að koma að þessum fjármögnunarhlutum hef ég skipað starfshóp til að gera tillögur um helstu stofnleiðir inn og út af höfuðborgarsvæðinu þar sem yrði um að ræða fullfrágang á öllum þessum helstu leiðum sem myndu þá byggja á einhvers konar gjaldtöku. Þetta mál er í skoðun og við munum leggja niðurstöður þeirrar vinnu fyrir þingið og aðra, þingnefndir, á vordögum. Þá getum við tekið ákvörðun um hvort okkur sýnist vera fýsilegur kostur að fara þá leið til að auka mjög það framkvæmdafé sem við höfum til nýframkvæmda en hér voru nefndar stórar tölur áðan, eins og borgarlínan upp á 40–100 milljarða, og spurt eftir því hvort ríkið kæmi að þeirri fjármögnun með sveitarfélögunum. Ráðstöfunarfé okkar til nýframkvæmda á þessu ári er 10 milljarðar þannig að allir sjá hvað er um risavaxið vandamál að ræða.

Ef vel tekst til með þá þætti sem við erum að láta skoða núna mun það auðvitað stórbæta allt umferðaröryggi á hættulegustu vegarköflum landsins. Það er þyngra en tárum taki að heyra fréttir af hörmulegum slysum eins og þeim sem hafa orðið á þeim vegarköflum þar sem akstursstefnur eru ekki aðskildar. En það er ekki nóg að minn vilji standi til þess að bæta öryggi samgangna og greiða fyrir umferð, höfuðborgin verður að vera þátttakandi og leggja áherslu með sama hætti og við erum að gera sem erum að vinna af hálfu ríkisins að þessum málum.