146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

samgöngur á höfuðborgarsvæðinu.

[11:32]
Horfa

Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að við skulum taka til umræðu samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Það er þörf umræða og málefni sem er ekki svo oft rætt.

Mig langar til að taka vinkilinn út frá bæði gróðurhúsalofttegundum, losun gróðurhúsalofttegunda, og lýðheilsumálum, hvernig við förum inn í þessa umræðu á höfuðborgarsvæðinu, og sérstaklega langar mig að nota tækifærið til að tala um samgönguhjólreiðar sem mér finnst að við þurfum að gera að miklu raunhæfari kosti fyrir þá sem vilja hjóla daglega. Við þurfum að búa til betri farveg fyrir samgönguhjólreiðar. Við þurfum að breyta umferðarreglum okkar. Við þurfum að aðskilja betur stíga fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Þetta er út frá öryggismálum, til þess að hvetja fleiri til samgönguhjólreiða og til búa til skýrari farveg.

Annars staðar á Norðurlöndunum eru mjög nákvæmar umferðarreglur. Mig langar að nefna að í forriti sem er sérstaklega fyrir þá sem hjóla og jafnvel hlaupa, þar sem hraði er mældur, hefur hjólreiðafólk mælt hraðann á sjálfu sér á göngustígum og fer hann allt upp í 58 km hraða þegar hámarkshraði er 30 km í hverfum nálægt. Ég er ekki að gagnrýna það heldur langar mig miklu frekar að vekja athygli á því út frá öryggismálum og líka því að við getum búið til sameiginlega stefnu hvað þetta varðar á höfuðborgarsvæðinu og í þessu kjördæmi, að samgönguhjólreiðar verði góður kostur og skapi ekki þá hættu (Forseti hringir.) sem þær gera í dag.