146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

samgöngur á höfuðborgarsvæðinu.

[11:44]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ítreka þakkir til málshefjanda, hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur, og þakkir fyrir innlegg hæstv. ráðherra Jóns Gunnarssonar.

Ég endaði síðustu ræðu á því að tala um þetta jafnvægi og nýja hugsun, breytta hugsun; þetta jafnvægi sem maður sér í hugmyndafræði um þéttingu byggðar og borgarlínu. Svo erum við komin að seinni þætti í áherslum hv. málshefjanda, þ.e. viðhaldi vega og umferðaröryggi, sem er auðvitað og verður alltaf mikilvægt og snýr kannski meira að verkefnum hæstv. ráðherra og okkar, þ.e. að huga að samgöngum og öryggi þar að lútandi.

Hæstv. ráðherra hefur viðrað hugmyndir um og lagt áherslu á þessar helstu stofnæðar. Það hafa orðið tafir á uppbyggingu vega og viðhaldi og m.a. á stofnæðum sem snúa að umferðaröryggi út úr höfuðborginni. Þær hugmyndir hafa vissulega verið gagnrýndar, aðallega á þeim forsendum að þar skorti á jafnræði. Við getum hins vegar vísað í mjög vel heppnaða framkvæmd eins og Hvalfjarðargöngin. Það er framkvæmd sem gekk mjög vel upp. Vissulega er þar til staðar það val að fara aðra leið. Það er auðvitað mjög mikilvægt. Ég tel að hæstv. ráðherra hafi nálgast málið mjög yfirvegað að gera úttekt á þessu.

Við sjáum það t.d. með þessa mikilvægu framkvæmd Sundabraut (Forseti hringir.) hvort þetta er möguleiki þannig að við séum ekki að upplifa tafir sem hafa (Forseti hringir.) verið mjög óæskilegar en eru staðreynd.