146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

samgöngur á höfuðborgarsvæðinu.

[11:50]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að byrja að þakka öllum þeim sem tóku þátt í þessari umræðu fyrir málefnalega, faglega og framsýna umræðu og sérstaklega fagna ég áherslum ráðherra og því að hann sýnir þessu máli mikinn áhuga. Þá er ekki úr vegi að fagna því líka að ráðuneyti innanríkismála hafi verið skipt upp og að við séum með sérstakt ráðuneyti samgöngu- og sveitarstjórnarmála því að þetta eru tveir málaflokkar sem eru mjög skyldir.

Þetta hefur verið góð umræða. Mig langar aðeins að tæpa hérna meira á almenningssamgöngunum. Ráðherra kom inn á þann samning sem hafði verið gerður á milli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins. Það er svo sem búið að gera ágætisúttekt á þeim málum og svona almenn ánægja með hvernig til hefur tekist hvað það varðar. Hægt er samt að kasta fram alls konar tölum í því samhengi. Við upphaf þess samnings var hlutfall þeirra sem nýttu sér almenningssamgöngur um 4%, markmiðið var sett á 8% og markmiðið í svæðisskipulaginu er 12%. Það að við náum þessum markmiðum hefur gríðarlega mikil áhrif á samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Við erum samt bara að tala um 12%. Eftir stendur náttúrlega að stór hluti íbúa mun enn þá ferðast með einkabíl. Vonandi verða hjólreiðarnar enn stærri hlutur og líka að hægt verði að ganga á milli staða.

Þá langar mig í þessu samhengi að minnast á að eins og almenningssamgöngur eru okkur mikilvægar þá er það ekki lögbundið hlutverk sveitarfélaga að standa undir almenningssamgöngum. Kostnaður við rekstur Strætó bs. sem er stærsta almenningssamgöngufyrirtækið, þá er ég að tala um kostnað við samgöngur á höfuðborgarsvæðinu, er um 7 milljarðar á ári. 800 milljónir koma frá ríkinu, 30% eru fargjöld eða 1,7 milljarðar, restin kemur frá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Ég held að mikilvægt sé að taka það inn í þetta samtal. Þetta er ekki lögbundið hlutverk en þetta er gríðarlega mikilvægt (Forseti hringir.) fyrir okkur. Þetta er þjóðhagslega hagkvæmt.

Ég fagna líka þeim áherslum sem hafa komið hérna upp varðandi lýðheilsuna, því að samgöngur eru skipulagsmál og hægt er að hafa mjög mikil áhrif á lýðheilsu með réttu skipulagi.