146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

staðan í ferðamálum - leiðir til gjaldtöku og skipting tekna.

[12:06]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að hefja þessa mikilvægu umræðu. Ferðamálin hafa raunar verið talsvert til umræðu í þessum sal á undanförnum árum. Það hafa verið unnar greiningar á ástandinu en líka verið kallað eftir að aðgerðir fylgi greiningu. Við eigum greiningu á því að ófullnægjandi salernisaðstaða sé víðs vegar um landið en enn erum við ekki búin að sjá markvissa aðgerðaáætlun um hvernig nákvæmlega eigi að fjölga þeim. Hæstv. ráðherra sagði hér að uppbygging innviða væri forgangsatriði. Ég er sammála. Langstærstur hluti þeirra ferðamanna sem hingað kemur kemur hingað vegna náttúrunnar og það er mjög mikilvægt að ráðist verði í uppbyggingu á ferðamannastöðum sem miðast við að við virðum þolmörk náttúrunnar og líka að við setjum aukna fjármuni til rekstrar á þessum svæðum. Þá er ég að vitna til landvörslunnar sem verður í auknum mæli að verða heils árs starf víðs vegar um landið á ólíkum svæðum.

Það er hins vegar svo að við sjáum ekki, til að mynda í ríkisfjármálaáætluninni sem nú liggur inni í þinginu, að gert sé ráð fyrir aukningu í uppbyggingu innviða ferðamannastaða, hvorki þegar kemur að rekstri né framkvæmdum. Við sjáum líka að það hefur ríkt ákveðið villta-vesturs-ástand þegar kemur að gjaldtöku. Það er alveg hárrétt sem hæstv. ráðherra segir, þetta er mikilvæg atvinnugrein, stærsta útflutningsgrein landsins, gríðarlega flott þróun sem byggir á frumkvæði fólks um land allt, en það skiptir máli að stjórnvöld hafi skýra sýn á þetta. Hæstv. ráðherra sagði að hún hygðist ekki leggja fram frumvarp um náttúrupassa og ég held að það sé gott því að það stangaðist á við almannaréttinn sem hefur verið í íslenskri löggjöf allt frá miðöldum. En við þurfum að finna hér einhverja sátt um hvernig við viljum haga þessari gjaldtöku. Þar þurfum við að virða grundvallarsjónarmið um almannarétt, að för fólks um landið sé áfram frjáls en að gjaldtaka miðist (Forseti hringir.) með einhverjum hætti við veitta þjónustu eða eins og við höfum lagt til, að horft verði til komugjalda sem eru þá skýr og gagnsæ leið til að innheimta frekari tekjur af þeim sem hingað koma.