146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

staðan í ferðamálum - leiðir til gjaldtöku og skipting tekna.

[12:18]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Við þingmenn erum nýkomin úr kjördæmaviku og ég sem þingmaður Suðurkjördæmis sótti þó nokkra fundi á því svæði. Ferðamálin voru mörgum ofarlega í huga og miðað við þær aðstæður sem hafa orðið til á Suðurlandinu er það engin furða, það er mikil umferð um þetta svæði en á sama tíma eru önnur svæði kannski ekki tóm en tómlegri. Sú sem hér stendur hefur gaman af því á sumrin að fara með tjaldið í skottinu og elta veðrið og það er gríðarlega mikill munur á milli landsvæða á Íslandi og við þurfum að bregðast við því með betri dreifingu ferðamanna. Ein leið er að fjölga gáttum inn í landið, eins og hv. þm. Þórunn Egilsdóttir nefndi áðan. Önnur leið er að auka tengingar á Keflavíkurflugvelli við önnur landsvæði, þ.e. að þeim sem koma til landsins gefist kostur á að halda beint áfram, t.d. norður eða austur eða því um líkt. Það sparar líka álag á vegina sem eru undir mjög miklu álagi.

Tíminn sem við höfum í þessari umræðu er mjög stuttur þannig að maður getur ekki sagt margt en mig langar að segja þó að það er ekki fyrr en 2011–2012 sem straumur ferðamanna fer að aukast verulega á Íslandi. Þetta er mjög stuttur tími, álagið á innviðina er mikið þannig að óhjákvæmilegt er að auka gjaldtöku, en hún þarf að vera skynsamleg og hún þarf að vera sanngjörn.

Nokkrar spurningar til ráðherra áður en ég lýk máli mínu: Hvaða skoðun hefur ráðherra á hugmyndum Framsóknar um að sveitarfélög, ríki og Framkvæmdasjóður ferðamannastaða fái þriðjung peninganna, að auka innanlandsflug um Keflavíkurflugvöll, gistináttagjaldið? Gistináttagjaldið hefur verið hækkað en þykir ráðherra það ekki ójafnræði þar sem hlutfall er mjög mismunandi milli dýrrar og ódýrrar gistingar? (Forseti hringir.) Telur ráðherra ekki ástæðu til að leggja frumvarp (Forseti hringir.) um komugjald fram aftur þar sem það var síðast (Forseti hringir.) lagt fram 2011 og síðan hefur mjög margt breyst?